Hvar var besta veiðin í sumar? Með einföldum útreikningum er hægt að svara því. Heildarfjöldi laxa í laxveiðiá segir ekki nema brot af sögunni. Við ákváðum að reikna þetta með þeim hætti að finna út meðaltal veiddra laxa á stöng á dag. Við deilum svo í þá tölu með fjölda veiðidaga sem er á flestum stöðum í kringum 90 dagar. Þá skýrist myndin og hægt að sjá hvar besta veiðin var. Urriðafoss fer í efsta sæti. Miðfjarðará er í öðru sæti og Haffjarðará í því þriðja. Athyglisvert er að Þverá/Kjarrá hrapar niður í níunda sæti. Miðfjarðará er með 3,02 laxa á stöng á dag. Það þýðir að hver veiðimaður þar í sumar veiddi á þremur dögum ríflega níu laxa. Á móti kemur að hafi sami veiðimaður farið í Laxá í Aðaldal, sem er með hlutfallið 0,39 laxar á stöng á dag, hefði hann mátt búast við að ná rúmlega einum laxi á þremur dögum.
Hér er listinn yfir árnar þar sem miðað er við veiði á dagstöng. Þessi listi er unninn út frá upplýsingum á angling.is eins og tölurnar standa núna. Landssamband veiðifélaga heldur úti þeim vef. Flestar ár eru búnar að birta lokatölur en engu að síður tökum við þennan lista nú saman. Reikniformúlan er einföld. Fjöldi stanga í viðkomandi á deilt með fjölda veiddra laxa. Við tökum þetta enn lengra og deilum í með 90, sem er fjöldi veiðidaga í flestum ám. Þá kemur út hver veiðin er á stöng á dag að meðaltali. Það er hinn raunsanni mælikvarði á hversu mikil veiðivon var í einstökum ám. Hér er ekki tekið tillit til verðs, þjónustu, tímabils eða slíkra þátta. Eingöngu er horft á tölur. Rétt er að benda á að bæði Blanda og Jökla fóru á yfirfall í sumar og litast tölurnar af þeirri staðreynd. Þar sem enn er langt eftir af veiðitíma í Rangánum eru þær ekki teknar inn í þennan útreikning. Þá er líka vert að hafa í huga að uppgefinn fjöldi stanga er tekinn af angling.is en þar geta hafa orðið breytingar. Má nefna að í Miðfjarðará er veitt á sex stangir fyrri hluta veiðitímans og myndi það hækka hlutfallið þar verulega, væri tekið tillit til þess. Sama má segja um Laxá í Dölum en þar er veitt á fjórar stangir framan af veiðitímanum.
Veiðisvæði Fjöldi laxa Fjöldi stanga Á stöng Á dag
Urriðafoss 1.317 4 329 3,66
Miðfjarðará 2.719 10 272 3,02
Haffjarðará 1.545 6 257 2,86
Elliðaár 960 4 240 2,66
Selá í Vopnafirði 1.340 6 223 2,48
Affall 816 4 204 2,26
Laxá í Dölum 1.075 6 179 1,99
Laxá á Ásum 702 4 176 1,95
Þverá/Kjarrá 2.455 14 175 1,95
Langá 1.635 12 136 1,51
Grímsá 1.036 8 130 1,44
Laxá í Kjós 989 8 124 1,37
Haukadalsá 603 5 121 1,34
Norðurá 1.692 15 113 1,25
Laxá í Leirársveit 671 6 112 1,24
Hítará 579 6 97 1,07
Blanda 870 10 87 0,96
Vatnsdalsá 500 6 83 0,92
Hofsá í Vopnaf. 697 9 77 0,86
Víðidalsá 561 8 70 0,78
Jökla 505 8 63 0,70
Laxá í Aðaldal 608 17 36 0,39
Vert er að benda á fleiri ár. Þannig er Flókadalsá með hlutfallið 1,76 laxar. Miðá í Dölum, Brennan og Hrútafjarðará með hlutfallið 1,33. Búðardalsá er einnig athyglisverð en þar er bara veitt á tvær stangir. Hlutfallið í henni er gott eða 1,84 laxar á stöng á dag sem er aðeins lakara en í Þverá og Kjarrá. Þá er Svalbarðsá með hlutfallið 1,2 laxar á stöng á dag að meðaltali.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |