Talsvert mikið af sjóbirtingi hefur verið það sem af er hausti í Vatnamótunum í Skaftá, skammt austur af Kirkjubæjarklaustri, sem virðist þó skila sér síður upp í bergvatnsárnar.
Að sögn Óskars Færseth hjá Stangveiðifélagi Keflvíkinga, sem leigir nokkur sjóbirtingssvæði í bergvatnsánum þar eystra, þá hefur veiðin í Geirlandsá varla verið meira en sæmileg það sem af er. Hollin hafa verið að fá 6 til 17 birtinga og því engin sprengjuveiði enn sem komið er. Holl sem lauk veiðum í fyrradag endaði með 17 birtinga, allt að 12 punda fiska.
Óskar sagði að það sem þyrfti væri að fá alvöruvatnsveður og flóð svo áin færi á yfirfall því þá ryðst fiskurinn oft upp úr Vatnamótunum og veiðin eykst, sérstaklega þegar áin fellur aftur.
Sömu sögu væri að segja frá Fossálnum þar sem enn þá hefur verið frekar rólegt fram að þessu. Hópur veiðimanna sem lauk veiðum þar í vikunni fékk 7 birtinga eftir tveggja daga veiði.
Eins væri með Flóðið svokallaða í Grenlæk þar sem hefur verið mjög rólegt enn sem komið er og voru til dæmis veiðimenn sem luku þar tveggja daga veiði nú í vikunni sem höfðu aðeins tvo birtinga upp úr krafsinu.
Heilt yfir væri því búið að vera heldur rólegt en opið verður til 20. október og því væru ekki öll kurl enn komin til grafar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |