„Það er allt í uppnámi vegna þessara frétta. Þetta er töluvert meiri veiði en við gerðum ráð fyrir,“ segir Friðleifur Egill Guðmundsson formaður NASF. Greint var frá því hér á mbl.is að heildarveiði grænlenskra veiðimanna á laxi í sjó hefði farið langt fram úr umsömdum kvóta. Kvótinn fyrir síðasta veiðitímabil var tuttugu tonn. Bráðabirgða niðurstöður hljóðuðu upp á heildarveiði sem var innan þeirra marka eða um átján tonn. Þegar endanlegt uppgjör barst kom í ljós að veiðin nam tvöföldum kvóta eða ríflega 40 tonnum.
NASF (North Atlantic Salmon Fund) og ASF (Atlantic Salmon Federation í Kanada) gerðu samkomulag við heildarsamtök grænlenskra veiðimanna, KNAPK sem stunda laxveiðar í sjó við Grænland. Í samningnum er kveðið á um bætur fyrir minnkandi veiði og settur heildarkvóti á laxveiðar. Kvótinn er tuttugu tonn og í samningnum er kveðið á um að stöðva megi veiðarnar fyrr ef útlit er fyrir að kvótinn sé veiddur. Veiðitímabilið er frá 15. ágúst til loka október.
„Við erum að reyna að fá svör og erum að reyna að koma á fundi. Þannig að við getum í raun og veru ekki svarað því núna hvað gerist. En samningurinn er enn í gildi og ef við ætlum að fara eftir honum þá þýðir þetta að enn frekar verður dregið úr þessum veiðum á næstu árum,“ segir Friðleifur
Eftir því sem hann kemst næst þá er talið er uppistaðan í veiðinni lax frá Kanada og eitthvað af evrópskum stofnum og þar með talið íslenskum. „Rannsóknir eru hins vegar af skornum skammti þannig að ég set fyrirvara við þetta. Hluti af samningnum er að hvetja til aukinna rannsókna. Í honum er hvati til að auka hreistursýnatöku á laxi.“
Þú tekur þessu af miklu jafnaðargeði?
„Nei. Nei. Við erum alls ekki sáttir. Langt frá því. Við erum að bíða eftir fundi með fulltrúum veiðimanna og stjórnvalda á Grænlandi til að komast til botns í þessu. Við þurfum að fá upplýsingar og útskýringar á því hvað fór úrskeiðis.“
Hann segir mjög jákvætt að skil veiðimanna á skýrslum hafi stóraukist. Þannig skiluðu um 70% veiðimanna upplýsingum eftir síðustu vertíð en fyrri ár voru það ekki nema 30% sem skiluðu skýrslu. Hluti af samningnum við veiðimenn er að þeir veiðimenn sem ekki skila upplýsingum fá ekki leyfi á næstu vertíð. „Þetta er ástand sem getur ekki verið langvarandi ef við ætlum að halda okkar samningi í gildi.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |