Gert er ráð fyrir því að báðar þekktustu laxveiðiár Vestfjarða verði vaktaðar með myndavélabúnaði í teljurum í sumar. Vöktunin miðar að því að fylgjast með og meta hlutdeild laxa af eldisuppruna í ánum. Slíkt vöktunarkerfi var sett upp í Laugardalsá í fyrra og framkvæmdir eru að hefjast við Langadalsá á næstu vikum og er stefnt að því að það verði komið í gagnið fyrir upphaf veiðitíma. Báðar eru árnar í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í skýrslum um vöktunarrannsóknir sem Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur og Ingi Rúnar Jónsson unnu og kom út í febrúar síðastliðnum.
Annað árið í röð veiddist eldislax í Laugardalsá, í fyrra. Laxins varð ekki vart í teljaraskráningu og er talið að hann hafi gengið í ána þegar teljarinn var bilaður í ágústmánuði. Eldislaxinn reyndist vera af norskum uppruna og kom úr stroki frá eldisstað Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði. Sumarið 2017 veiddist einnig fiskur í Laugardalsá sem talinn var eldisfiskur. Frétt þess efnis birtist á vef bb.is þann 28. september og var talið af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar að fiskurinn væri eldisfiskur. Bæði var hann uggaskemmdur og með samgróninga í innyflum sem geta komið í kjölfar bólusetningar eldisseiða, en slíkt sést ekki í villtum fiskum.
Fiskiteljarinn í Laugardalsá komst í gagnið í byrjun júní í fyrra og var starfræktur fram til 11. október, að því er kemur fram í vöktunarskýrslu þeirra Sigurðar Más og Inga Rúnars fyrir vatnasvæðið, sem kom út í janúar. Nokkur vandamál komu upp með teljarann, bæði vegna mikils lífræns reks í ánni og einnig settust bæði þörungar og mosi á búnaðinn. Þá kom upp bilun í ágúst. Til stendur að gera nokkrar breytingar á búnaðinum fyrir sumarið sem er fram undan til að minnka mögulegar rekstrartruflanir.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |