Fyrsta íslenska veiðihlaðvarpið, eða podcast um fluguveiði, hefur hafið göngu sína. Hlaðvarpið ber heitið Flugucastið. Þriðji þáttur var sendur út í dag og situr þar fyrir svörum Villimaðurinn ungi Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson. Stjórnendur Flugucastsins eru tveir miklir veiðiáhugamenn, þeir Sigþór Steinn Ólafsson og Hafsteinn Már Sigurðsson.
Þættirnir eru sendir út vikulega á fimmtudögum. Í fréttatilkynningu um nýja hlaðvarpið segir meðal annars; „Flugucastið fær til sín einn veiðimann í hverjum þætti sem deilir veiðisögum sínum en allir viðmælendurnir hafa af nógu að taka í reynslubankanum. Þeir deila sögum af sorgum og sigrum, merkilegum veiðistöðum, gefa góð ráð fyrir ákveðna veiði eða ákveðin veiðisvæði og svo mætti lengi telja. Meðal þeirra sem þegar hafa komið fram í þáttunum eru Björn K. Rúnarsson, Eggert Skúlason og Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson.“
Sigþór og Hafsteinn, umsjónarmenn lofa því að margar sleggjur úr veiðibransanum séu væntanlegar í þáttinn en vilja ekki gefa meiri uppi að svo stöddu heldur hvetja fólk til að fylgjast spennt með.
Um þá félaga segir í fréttatilkynningunni: „Umsjónarmenn þáttarins eru, eins og gefur að skilja, forfallnir veiðimenn. Sigþór Steinn hefur komið víða við í veiðibransanum undanfarin tuttugu ár. Hann hefur stundað allt frá maðkatínslu og fluguhnýtingar yfir í leiðsögn og rekstur veiðisvæða. Hann hefur dvalið átta sumur við leiðsögn í Kjarrá í Borgarfirði en komið mun víðar við í leiðsögn í gegnum tíðina. Hann kann þó best við sig á bökkum Laxár í Mývatnssveit að egna fyrir urriða með þurrflugu.
Hafsteinn Már Sigurðsson er múrari, hljóðmaður, sjálfskipaður grínari og gallharður Kópavogsbúi sem fékk alvarlega veiðibakteríu á þrítugsaldri og líður hvergi betur en við árbakkann, helst á svæði IV í Blöndu eða við Hrútafjarðará.
Flugucastið er aðgengilegt á Spotify, Soundcloud og Apple Podcasts. Hægt er að fylgjast með fréttum af nýjum þáttum á Facebook-síðu Flugucastsins: https://www.facebook.com/flugucastid.
Viðtökur hafa verið góðar og samkvæmt Apple Podcast forritinu eru þeir að rokka frá áttunda til tólfta sætis yfir vinsælustu hlaðvörp á Íslandi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |