Urriðaveiðin í Þingvallavatni byrjaði af krafti á opnunardeginum í gær. ION-svæðið er rómað fyrir stóra urriða eða afkomendur ísaldarurriðans. Fiskur gaf sig strax í morgunsárið og þrátt fyrir rok og rigningu voru menn duglegir. Einn þeirra sem hóf veiðar í gær er Ingvar Svendsen veitingamaður. „Já það var rok og úrkoma, en veiðin var hreint út sagt frábær, alveg frá byrjun,“ sagði Ingvar í samtali við Sporðaköst. „Það var rosalegt líf á svæðinu og við sáum mikið af fiski. Bæði stutt frá landi og utar.“
Ásgeir Einarsson landaði 86 sentimetra fiski í Þorsteinsvík og þó nokkrir mældust yfir 70 sentimetrar og einnig var töluvert um smærri fisk. „Við höfum verið að taka þetta mest á Black Ghost og aðrar straumflugur,“ sagði Ingvar. Hann fékk síðasta fiskinn á Black Ghost-afbrigði með appelsínugulu skeggi.
Alls var tugum urriða landað á fjórar stangir á svæðinu. ION-svæðið er tvö í raun tvö veiðisvæði. Það er annars vegar Þorsteinsvíkin og þar eru tvær stangir og svo er það Ölfusvatnsárós og þar eru aðrar tvær. Á báðum svæðum var góð veiði og menn voru líka að missa töluvert af fiski.
„Það sem er svo magnað við þetta er að maður þarf að strippa nánast upp í topplykkju. Fiskurinn er stundum að taka alveg við lappirnar á manni. Svo eru þetta svo sterkir fiskar að það er alveg magnað. Ég hélt oft að ég væri búinn að setja í eitthvert tröll því að takan var svo svakaleg. Þetta eru svo sterkir fiskar og um fimm punda svona urriði er eins og að takast á við tíu punda lax,“ sagði Ingvar að lokum.
Nokkrir af liðsmönnum hópsins sem kalla sig Villimenn voru við veiðar í Villingavatnsárósnum í Þingvallavatni. Þeir lentu sömuleiðis í hörkuveiði og settu í mikið af fiski. Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson birti mynd af sér með gríðarfallegan ísaldarurriða. Þeir félagar voru að taka þessa fiska mestmegnis á straumflugur, Black Ghost en líka Dodda, Rektor og fleiri flugur. Það er óhætt að segja að urriðaveiðin í Þingvallavatni hafi farið af stað með moki.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |