Veiðin í Eldvatni í Meðallandi hefur verið með ágætum í apríl. Komnir eru ríflega hundrað fiskar á land. Allt eru þetta sjóbirtingar þó svo að einn og einn staðbundinn urriði slæðist með. Miklar framkvæmdir hafa verið undanfarin ár í slóðagerð við vatnasvæðið og er það orðið mun aðgengilegra en áður var. Nú er kominn ágætur slóði upp að Fossi sem er einn af efstu veiðistöðum í Eldvatninu.
Veitt er á sex stangir á svæðinu og er mjög rúmt um þær þar sem áin er bæði vatnsmikil og löng. Vorveiðinni lýkur um miðjan maí og hefst svo haustveiðin seinnipartinn í ágúst og stendur fram í október.
Veiði hefur farið vaxandi síðari ár og þakkar Erlingur Hannesson, einn af leigutökunum, það fyrst og fremst þeirri ákvörðun að taka upp veiða og sleppa. „Við erum að sjá aukna veiði. Þegar við vorum að byrja hérna var veiðin kannski tvö til þrjú hundruð fiskar. Nú erum við að sjá ár þar sem hún fer yfir sjö hundruð. Við erum líka búnir að vera að sleppa sumaröldum sjóbirtingsseiðum í nokkur ár og erum að vonast til þess að sjá fyrsta árganginn koma inn í veiðina í haust,“ sagði Erlingur í samtali við Sporðaköst.
Hollið sem nú er að ljúka veiðum í Eldvatninu er komið með átján fiska og megnið af því er stórfiskur. Einn af þeim veiðistöðum sem geymir enn mikið af fiski er Villi. Þar er hægt að nálgast fiskinn og þægilegt að kasta fyrir hann. Flestir veiðimenn í Eldvatninu er þungvopnaðir. Með tvíhendur, sökklínur og þungar flugur. En fiskar hafa líka verið að taka léttar straumflugur á flotlínu og má segja að öll tækni sé að virka þar eystra. Sporðaköst litu við fyrir austan og tók hús á veiðimönnum. Með einhendu að vopni og flotlínu var ákveðið að kasta Rektor á Þórðavörðuhyl. Þetta er afskaplega stór og mikill dammur sem endar í fallegri breiðu. Á einum af speglunum mátti sjá sjóbirting lyfta haus og nánast kinka kolli. Þangað var Rektorinn sendur og flotlínan strippuð á nokkrum hraða. Eftir nokkur köst ólgaði við fluguna. Í næsta kasti rauk sjötíu sentímetra fiskur á Rektorinn og negldi hana. Þetta kom öllum viðstöddum þægilega á óvart.
Nokkru áður hafði Erlingur sett í bolta fisk í veiðistaðnum Ragnarsseli og slóst hann lengi við fiskinn sem naut straumsins. Þessum fiski var landað og mældist hann 77 sentímetrar og allir þessir fiskar áttu það sameiginlegt að vera afskaplega sterkir og þegar þeim var sleppt fóru þeir með bæði boðaföllum og sporðaköstum.
Eldvatnið er um margt sérstakt. Nú í þeim miklu rigningum sem verið hafa er áin vatnsmikil en hún litast ekki. Hún á upptök sín í mörgum uppsprettum þar sem vatnið kemur fram undan hrauni. Á móti kemur að áin er köld. Fjórar til sjö gráður. Hún nær ekki mikið að hlýna á sumrin því uppspretturnar eru dreifðar svo víða um vatnasvæðið.
Birtingurinn er á niðurleið og búast má við vaxandi veiði þegar fiskurinn þjappast saman neðan við þjóðveginn í Meðallandi og þar hafa menn oft gert ævintýralega veiði þegar komið er fram yfir mánaðamót.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |