Nú þegar vatnaveiðin er að komast almennilega í gang er rétt að benda á tækni sem nokkrir veiðimenn hafa tileinkað sér. Þeir veiða úr tröppu sem komið er fyrir úti í vatninu á góðum botni. Þessi aðferð er einkar hentug þegar vatn er stillt og hægt er að sjónkasta á fisk. Það getur líka verið gott að komast upp úr vorköldu vatninu. En mikilvægt er að finna hentugan botn. Það gæti orðið kalt bað ef stiginn er valtur.
Guðlaugur Helgason veiðimaður hefur notað þessa tækni með góðum árangri í Heiðarvatni og víðar. „Ég lærði þetta af félaga mínum og þetta hefur oft gefið mér skemmtilega veiði. Það er svo dásamlegt að geta séð fiskinn og kastað á hann. Maður er kominn með allt annað sjónarhorn og getur séð hvort fiskurinn er að skoða það sem maður er að sýna honum,“ sagði Guðlaugur í samtali við Sporðaköst.
Hann notar jöfnum höndum straumflugur og púpur þegar hann veiðir úr stiganum og á stilltum degi segir hann þennan veiðiskap alveg frábæran.
„Ég hef líka notað þetta í ám ef ég er að hitcha til dæmis. Það munar svo mikið um að geta hækkað sig og breytt sjónarhorninu,“ segir Guðlaugur.
Myndirnar sem fylgja með greininni eru frá opnun Heiðarvatns 2015. Þá nýtti Guðlaugur sér stigann og nú styttist í þetta magnaða veiðivatn opni, en það gerist um mánaðamótin. Bleikjan í Heiðarvatni er afskaplega falleg og á vorin má þar oft gera góða bleikjuveiði í bland við urriða. Fyrstu daga veiðitímans eru líka sjóbirtingar enn á sveimi í vatninu og er það iðulega geldfiskur sem ekki er genginn til sjávar, sína leið niður Vatnsá og í framhaldinu um Kerlingadalsá og með henni til sjávar.
Guðlaugur mun taka tröppuna góðu með sér þegar hann fer í Heiðarvatn í maí. „Já hún verður í bílnum og ef að aðstæður skapast verður hún dregin fram. Það er á hreinu,“ hlær Guðlaugur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |