Hrognagröft í stað seiðasleppinga

Hrognasúpu helt í holu í Brekkulæk ofan ræsis í Miðfirði.
Hrognasúpu helt í holu í Brekkulæk ofan ræsis í Miðfirði. Ljósmynd/Aðsend

Bjarni Jónsson fiski- og þróunarvistfræðingur fóstrar í dag nokkrar bestu laxveiðiár landsins. Þeirra á meðal eru Miðfjarðará í Húnavatnssýslu og nágranni hennar Víðidalsá að ógleymdum Húseyjarkvísl og Hofsá ásamt Sunnudalsá í Vopnafirði. Á undanförnum árum hefur Bjarni lagt til þá leið að hætta seiðasleppingum þar sem þær hafa farið fram í ám sem hann hefur sinnt og fara þess í stað náttúruvænni leiðir og hlúa að ánum sjálfum og umhverfi þeirra, Þannig að lífríki þeirra fái notið sín sem best á eigin forsendum. Á meðal þess sem hann hefur gert er að grafa hrogn laxa úr ánum, þar sem bæði er gætt að uppruna innan vatnakerfa og foreldrafjölda. Bjarni leitar þá leiða til að nýta búsvæði sem geta borið meira magn af seiðum, oft ofan manngerða hindrana eins og vegræsa í hliðarám og lækjum og einnig horfir hann til þess að jafna nýtingu um ána til að koma á heildarjafnvægi. Þar er hann fyrst og fremst að horfa til þess að tryggja betri dreifingu laxins yfir veiðitímann og með því að styrkja svæði sem áður voru að gefa lítið, eins og oft vill verða með neðstu svæði í ám, sem eru langar.

Bjarni Jónsson fiski- og þróunarvistfræðingur fóstrar nokkrar af bestu laxveiðiám …
Bjarni Jónsson fiski- og þróunarvistfræðingur fóstrar nokkrar af bestu laxveiðiám landsins. Ljósmynd/Aðsend

Hann hefur mikla reynslu og var strax sem unglingur starfandi sem aðstoðarmaður á gömlu Veiðimálastofnun og tók síðar við Norðurlandsdeild þeirrar stofnunar sem hann stýrði áður á annan áratug en starfar nú á öðrum vettvangi. En snemma fór hann að hvetja menn til þess að hætta að sleppa seiðum og leita annarra leiða. „Ég setti líka spurningamerki við seiðasleppingar í samhengi við náttúrulega umgjörð og vernd villtra laxastofna. En þá þurfti maður að benda á aðrar og betri leiðir og ég hef verið að prófa mig áfram með það.“

Íslandsmet í hrognagreftri

„Við grófum síðasta haust meira af hrognum í hliðarám, lænum og lækjum við Hofsá, auk ófiskgengra svæða, en gert hefur verið nokkurs staðar áður á Íslandi. Við grófum um hundrað þúsund hrogn á vatnasvæðinu, samanborið við um fimmtíu þúsund hrogn haustið áður sem einnig telst mikið, en þá byrjuðum við á slíku verkefni í Hofsá. Til samanburðar má nefna að stór hrygna hrygnir kannski um átta þúsund hrognum og sumar meira, en það er allt á sama stað. Við dreifum þessu á marga staði og það eykur líkurnar á að fleiri seiði komist á legg. Við tökum líka tillit til þess hvað við teljum að hvert svæði geti borið af seiðum. Þannig að við setjum lítið magn í hliðarlæk sem ber kannski ekki svo mikið af seiðum, en meira á aðra staði,“ sagði Bjarni í samtali við Sporðaköst. Hann hefur unnið með þessa aðferðafræði frá því um aldamót og hefur lengst af verið viðloðandi Miðfjarðará, sem er í dag gjöfulasta náttúrulega laxveiðiá landsins. Hann segir að taka þurfi tillit til margra þátta. Hann nefnir sérstaklega magn af hrognum á hverjum stað og tímasetningu á hrognagreftrinum. Þar er hægt að stilla tímann aðeins af með því að stjórna hvenær fiskur er kreistur. Þar segist Bjarni horfa til þeirra svæða þar sem vorar aðeins seinna og eru jafnvel kaldari en gengur og gerist.

Seiðagarður í Húseyjarkvísl. Sjötíu slíkir hafa verið útbúnir til að …
Seiðagarður í Húseyjarkvísl. Sjötíu slíkir hafa verið útbúnir til að veita seiðum skjól og tryggja ákjósanleg búsvæði. Ljósmynd/BJ

„Við slíkar aðstæður hef ég verið að grafa hrognin eins seint og mögulegt er svo að þau klekist út síðar á vorin og minnka þar með líkur á skakkaföllum. Við tökum einnig tillit til botngerðar. Það er vandasamt að velja bestu staðina og fara í gegnum ferlið frá kreistingu og þangað til hrognunum hefur verið komið fyrir með ákjósanlegum hætti. Oft eru einnig aðstæður erfiðar vegna þess að árnar eru komnar undir ís. Hrognagröftur hljómar einfaldur, en hann krefst mikillar reynslu og þekkingar þannig að vel takist til. Það er því ekki einboðið að hver sem er geti stokkið til, hvort heldur fiskifræðingar eða leikmenn sem litla reynslu hafa af slíku. Þá er mikilvægt að allar slíkar aðgerðir taki mið af faglegri ráðgjöf fyrir viðkomandi ár.“

Lax farinn að hrygna í hliðarár

Bjarni nefnir sem dæmi Urriðaá sem er hliðará Miðfjarðarár. Þar er hann búinn að grafa seiði á tíu stöðum fyrir ofan foss í ánni, árum saman. Nú er svo komið að lax er farinn að hrygna neðan við fossinn af því að hann gengur þangað upp þar sem hann klaktist út. „Þarna hrygndi ekki lax áður og það sama á við um aðra hliðará í Miðfirði sem heitir Steinsstaðaá. Við höfum líka verið að vinna með sjálfa Miðfjarðarána til að auka fiskgengd þar með hrognagreftri í hliðarám og ofan ófiskgengra ræsa í lækjum.“

Um þetta snýst öll vinnan. Tryggja meira af fiski og …
Um þetta snýst öll vinnan. Tryggja meira af fiski og betri dreifingu á honum. Hér hampa menn 101 sentímetra fiski úr Miðfjarðará. Rafn V. Alfreðsson

Hann segir líka skipta miklu máli að passa upp á umhverfið og það hafi komið bersýnilega í ljós í Miðfirðinum. „Með því að passa upp á og endurheimta árkvíslar og búsvæði á ríflega fimm kílómetra kafla sem lengi hafði skilað litlu af sér af gönguseiðum, tókst að allt að því þrefalda fjölda gönguseiða sem gekk til sjávar, bara af þeim árhluta. Þetta var bara með því að passa upp á umhverfið og að allar kvíslar og umgengni væru í lagi.“ Sem dæmi nefnir Bjarni að ef sett er ræsi á læk eða á, þurfi að huga sérstaklega að því að seiði eigi þar möguleika á að komast leiðar sinnar.

„Stjórnum hvaða svæði fara í nýtingu“

Í Hofsánni höfðu menn fyrst og fremst einblínt á efsta svæðið og verið að sleppa fiskum fyrir ofan foss. Vandamálið við það segir Bjarni vera að það sé ekki hægt að stýra því hvar fiskurinn hrygnir. „Laxinn var að hrygna mikið á sömu stöðunum og það fékkst ekki nægilega dreifing. Það þarf svo mikið magn af fiski sem er sleppt með þessum hætti til að eitthvað komi út úr því. Þá er hitt vandamálið að menn vilja ekki vera að taka of mikið af fiski af neðri svæðunum til að hafa ekki of mikil áhrif þar. Með því að grafa hrogn getum við stjórnað hvaða svæði fara í nýtingu og getum þá um leið stækkað búsvæðin mjög mikið. Þar höfum við náð góðum árangri og við sáum í fyrra að besti vöxtur var í vorseiðum í Tunguánni og lækjum sem falla í Hofsá, sem ekkert hefur verið gert með fram að þessu.“

Bjarni er að horfa til heildarhagsmuna. Bæði lífríkið og ekki síður efnahagslega þáttinn sem snýr að veiðimönnum.

„Það skiptir svo miklu máli í þessum vatnakerfum að hafa gott jafnvægi. Bara til að hafa veiðimenn ánægða. Það er ekkert voða spennandi ef eitt eða tvö svæði eru að gefa fisk og allir bíða eftir að komast á þau. Eru þess á milli á daprari svæðum og hálfpartinn bíða þau af sér. Þú villt að menn séu alltaf í einhverri veiði á öllum svæðum. Þess vegna hef ég líka verið að leggja áherslu á að styrkja neðri hluta í þessum ám með því að byggja litla seiðagarða neðan vatnsborðs þar sem mest vöntun er á góðum búsvæðum, ekki síst fyrir eldri árganga seiða, þannig að seiðin eigi meira skjól sem eykur aftur líkurnar á þau skili sér til baka.“ Áhersla er lögð á að þessar grjóthleðslur séu litlar, falli vel inn í umhverfið og hverfi að sjálfu sér ef þeim er ekki við haldið, á nokkrum árum. Oftar en ekki er verið að sameina vistvænar bakkavarnir gegn landbroti og endurheimt búsvæða seiða.

Veiðimaður landar laxi í Laxhyl í Húseyjarkvísl.
Veiðimaður landar laxi í Laxhyl í Húseyjarkvísl. Einar Falur

Sjötíu seiðagarðar

Í Húseyjarkvísl hefur Bjarni verið viðloðandi ráðgjöf og tilraunir í aldarfjórðung. „Eitt af því sem við höfum verið að gera þar er að byggja fjölda lítilla grjótgarða undir vatnsyfirborði til að bæta búsvæði fyrir seiði. Þeir eru nú orðnir um sjötíu talsins í Húseyjarkvísl og tryggja betri skilyrði fyrir seiðin þar. Á þessum tíma höfum við verið að þróa sem árangursríkastar aðferðir við búsvæðagerðina og fylgst með árangrinum. Hefur verið fylgst með lífríki árinnar á mismunandi árstímum, sumar og vetur. Hvergi hefur verið unnið eins mikið og markvisst starf í búsvæðagerð fyrir laxaseiði á landinu.“

Bjarni hefur metið seiðavísitölur í þeim ám sem hann er að ráðleggja við. Hvað sýnist honum um seiðamagn sem gekk út í fyrra?

Uppgangur framundan

„Ef ég nefni Hofsá þá var þokkaleg ganga út af seiðum síðasta vor og hún mun verða stærri nú í vor en gerst hefur nokkur undanfarin ár. Það er fiskur sem mun veiðast sem smálax á næsta ári og stórlax ári síðar. Hofsá er á uppleið og það mun halda áfram miðað við það sem ég hef séð. Hinar árnar sem ég fylgist með eins og Víðidalsá, sem ég tók nýlega við, er á hægri uppleið og þar erum við byrjaðir í hrognagreftri og frekari vinnu við endurheimt búsvæða og búsvæðagerð ásamt fleiru. Byrjunin lofar mjög góðu. Miðfjörðurinn þar þakka ég þessum mikla árangri þegar þú ert með allt í lagi alls staðar. Allt er að virka og þá verður útkoman þessi bara aftur og aftur. Miðfjörðurinn lítur mjög vel út og sama er að segja með Húseyjarkvíslina.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert