Aukahlutir fyrir fluguveiðimenn

Helgi Þórðarson, eða Reiða öndin eins og hann kallar sig …
Helgi Þórðarson, eða Reiða öndin eins og hann kallar sig með 103 sentimetra fisk sem hann veiddi í Vatnsdalsá í opnun 2017. Þessi fiskur veiddist í Birgishyl. Ljósmynd/Aðsend

Reiða öndin er vörumerki sem sífellt fleiri veiðimenn þekkja. Reiða öndin hannar og selur fallega gripi og aukahluti fyrir veiðimenn. Bæði er um að ræða vandað handverk en ekki síður nytsamlega gripi. „Ég hef það meðal annars að leiðarljósi að menn get veitt léttbúnir. Þurfi ekki að vera með alla vasa fulla af dóti. Þannig er til dæmis fluguveskið og faðmurinn hugsað,“ segir Helgi Þórðarson í samtali við Sporðaköst.

Nokkrir aðilar standa að baki Reiðu öndinni en Helgi hefur orð fyrir þeim. Þeir smíða alla sína gripi sjálfir.

Faðmur er málband sem þægilegt er að hafa um úlnlið …
Faðmur er málband sem þægilegt er að hafa um úlnlið til að mæla lengd á fiskum. Ljósmynd/ES

Fluguveskið er úr leðri með skinnpjötlu inni í. Mjög skynsamlegt getur verið að velja flugur áður en farið er út í hylinn og setja þær í veskið og skilja boxin eftir í bílnum. Sama á við um faðminn sem er leðuról til að hafa um úlnliðinn til að mæla lengd fiska.

Eru fluguveiðimenn pjattaðir?

„Já.“ Hann hugsar sig ekki um. „Fluguveiðimenn eru líka til í að prófa hluti og nota gjarnan það sem virkar og er hentugt. Mér finnst líka gaman að sjá hversu margar konur eru að kaupa gripina. Maður sér hvað þeim er að fjölga í veiðinni og það er frábært.“

Hér má sjá hluta af vöruúrvali Reiðu andarinnar. Veglegt handverk.
Hér má sjá hluta af vöruúrvali Reiðu andarinnar. Veglegt handverk. Ljósmynd/ES

Þetta byrjaði hjá honum fyrir átta árum. Þá var stutt í að margir veiðifélagar yrðu fimmtugir og það var tilvalin gjöf að gefa trébox með flugum í við slík tímamót. Svo þróaðist þetta meir og meir. „Öndin er með einhver tuttugu vörunúmer og kollinn fullan af hugmyndum. Okkur vantar bara tíma til að hrinda þeim í framkvæmd.“

En hvaðan kemur nafnið Reiða öndin?

„Ég var fjölmörg ár í opnun í Laxárdalnum í Mývatnssveit og þarna var allt fuglalífið að fara af stað og sérstaklega voru endurnar fjölmennar. Oft var það þannig að sú önd sem varð undir í mökunarslagnum flaug burt afskaplega reið. Mér fannst þetta fyndið og þannig varð nafnið til. Svo gleyma menn þessu ekki svo glatt,“ segir Helgi í samtali við Sporðaköst.

Vörur Reiðu andarinnar eru til sölu í fjölmörgum veiðibúðum og veiðihúsum á Íslandi. Öndin er líka með síðu á Facebook undir nafninu Reiða öndin og þar má sjá hluta af vörunum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert