Ástæðurnar fyrir uppgangi urriðans

Jóhannes með urriða sem veiddist á stöng í Þingvallavatni. Þessi …
Jóhannes með urriða sem veiddist á stöng í Þingvallavatni. Þessi fiskur var merktur og honum sleppt. Jóhannes segir veiða og sleppa fyrirkomulagið eina helstu ástæðu fyrir uppgangi urriða. Ljósmynd/Laxfiskar

Urriðaveiðin í Þingvallavatni hefur aukist ár frá ári á þessum áratug. Hvert metið á fætur öðru hefur fallið. Sporðaköst leituðu til helsta urriðasérfræðings í málefnum Þingvallavatns en það er Jóhannes Sturlaugsson hjá Laxfiskum. Hann hefur rannsakað ísaldarurriða í tuttugu ár. Þegar hann er spurður um skýringar á aukningu urriða í Þingvallavatni, segir hann þær einkum tvær. „Sú fyrsta er að það er meira af fiski að hrygna og aðstæður í Öxará og Ölfusvatnsá sem renna í Þingvallavatn eru betri fyrir urriðann þann stutta tíma sem seiðin dvelja þar, vegna hækkandi lofthita. Auk þess sem skilyrði fyrir hann í vatninu hafa að öllum líkindum einnig batnað vegna þessara umhverfisbreytinga.“ Jákvæð áhrif þessa bætta umhverfishags urriðans segir Jóhannes að sé auðvelt að skilja þegar litið er til þess að urriðinn er hérlendis á norðurmörkum sinnar útbreiðslu á veraldarvísu.  Síðan er það „veiða og sleppa“ sem hefur mikið hjálpað til við uppbyggingu urriðastofna Þingvallaurriðans. „Og það þarf ekkert að ræða það lengur, þó að sumir vilji gera það. Veiða og sleppa er að skila rosalega miklu áfram á milli ára af fiski sem komin er í veiðistærð sem ella hefði sagt sitt síðasta á vatnsbakkanum. Þessir fiskar veiðast margir ítrekað og sumir einstaklingarnir árum saman,“ sagði Jóhannes í samtali við Sporðaköst.

Fluguhnýtarinn Marek Imierski með fallegan urriða úr Þingvallavatni. Marek er …
Fluguhnýtarinn Marek Imierski með fallegan urriða úr Þingvallavatni. Marek er með kynningu á flugunum sínum í Veiðihorninu í Síðumúla á morgun klukkan 20, ásamt Cezary Fijalkowski. Frábært tækifæri fyrir áhugamenn um Þingvallavatn. Ljósmynd/CF

Hann segir algerlega búið að sanna að veiða og sleppa aðferðin í Þingvallavatni virki eins og til er ætlast og fyrir það svæði þá þurfi í raun ekki að ræða þá gagnsemi þess veiðiháttar frekar. „Auðvitað er einn og einn sem vill halda öðru fram. Það eru hins vegar ekki einasta að stangveiðimenn séu að endurveiða merkta fiska frá mér í vatninu, því þessi urriði er einnig að hrygna árum saman í ánum líkt og endurveiðar mínar þar á merktum fiski um hrygninguna sýna.“

En nú hefur sprottið upp umræða um mögulegan dauða á fiski, hefurðu enga trú á þeim, sögum?

„Nei ég hef enga enga trú á þeim tröllasögum sem heyrst hafa um slíkt. Auðvitað drepst einn og einn fiskur, það er pottþétt, en þeir eru í reynd sárafáir og hverfandi fjöldi þegar á heildina er litið og varðandi þá heild má benda á að á þessu ári hefur á annað þúsunda urriða verið stangaveiddur í Þingvallavatni og veiðin vart byrjuð.  Um þessar afgerandi lífslíkur urriðans í kjölfar stangveiði vitnar hátt endurheimtuhlutfall merktra urriða, bæði í stangveiði og einnig í rannsóknaveiðum á hrygningartíma á riðum ánna. Gögn sem byggja á merkingum mínum á annað þúsund urriðum sem stangaveiddir hafa verið í Þingvallavatni auk fáeinna þúsunda sem ég hef merkt í ánum. Ef þau gögn duga mönnum ekki til að taka trúna í þessum efnum þá má benda á stóra hópa urriða sem ég hef merkt með rafeindafiskmerkjum í kjölfar þess að þeir hafa verið stangaveiddir sem ég get fylst með ferðum hjá eftir sleppingu fyrir tilstilli skráningarstöðva sem eru vítt og breitt um Þingvallavatn. Enginn þeirra urriða hefur séð ástæðu til að leggja upp laupana fyrr en búast mátti við miðað við aldur og fyrri störf.“

Cezary mætir einnig í Veiðihornið og deilir reynslu sinni af …
Cezary mætir einnig í Veiðihornið og deilir reynslu sinni af urriðaveiði í Þingvallavatni. Ljósmynd/Aðsend

Jóhannes segir líka að rannsóknir spili stórt hlutverk í vexti urriðastofnanna í Þingvallavatni. Gögnin sem ég hef náð að afla eru ítarleg og spanna löng tímabil og tilvist þeirra gerir kleift að ráðleggja mönnum með naglföst rök í farteskinu „Það er viðbúið og reyndar eðlilegt að ef þessi gögn lægju ekki til grundvallar þá myndi færri meðtaka boðskapinn um hvernig sé best að haga málum í veiði og öðru er lýtur að vernd og öðru er stuðlar að heilbrigðum viðgangi urriðans í Þingvallavatni.“

Jóhannes bendir á að rannsóknir sem hann gerði á kvikasilfri í urriðanum í samvinnu við sérfræðinga Matís skipti miklu máli. „Menn verða að sleppa fiskum sem eru komnir yfir sextíu sentímetra, ef þeir vilja hreinlega ekki ganga í skrokk á sjálfum sér með því að éta hann. Það eru yfirgnæfandi líkur á því að urriði sem náð hefur þeirri stærð innihaldi það mikið magn af kvikasilfri að skaðlegt sé að neyta hans. Konur á barneignaaldri og óléttar konur allra helst skyldu ekki neyta urriða sem komnir eru í þann flokk. Neikvæð áhrif á nýrnastarfsemi hefur einnig verið nefnd og fleira ætti ekki að þurfa að nefna því slíkur fiskur er ekki einu sinni söluhæfur með hliðsjón af þeim Evrópustöðlum sem við fylgjum.“

Á ION svæðinu í Þingvallavatni hafa verið selgin mörg met …
Á ION svæðinu í Þingvallavatni hafa verið selgin mörg met í vor. Veiðin hefur á köflum verið ævintýraleg. Veiða og sleppa er ein helsta ástæðan fyrir uppgangi urriðans. Ljósmynd/Aðsend

Allur urriði í Þingvallavatni flokkast sem ísaldarurriði. Stórurriðinn er tákngervingur hans, hraðvaxta fiskur sem gengur seint og og stór í kynþroska og nær enn meiri vexti vegna þess hve gamall hann verður að jafnaði. Jóhannes segir að frávik þessa lífsferils finnist hjá Þingvallaurriðum, þ.e.a.s. að hængar kynþroskist smáir og ungir  en það sé fátítt og þeir séu þrátt fyrir það í reynd engu minni ísaldarurriðar en meðbræðurnir stóru.

Hvað getur þessi fiskur orðið stór?

„Það eru eðlileg skekkjumörk þegar menn eru að mæla lifandi fisk líkt og reyndin er í flestum tilfellum með Þingvallaurriðann í dag vegna „veiða og sleppa“ veiðifyrirkomulagsins. En það sem ég get staðfest frá eigin mælingum á Þingvallaurriða sem eru nákvæmar vegna þess að fiskurinn er allajafna svæfður áður en mælingar eru framkvæmdar og mælitækin bestu gerðar, að þá er sá lengsti sem, ég hef farið höndum um 110 sentímetra langur og sá þyngsti um 13 kíló. Svo má nefna það að lengd og þyngd haldast ekki endilega í hendur. Þessir allra lengstu eru oft orðnir aðeins rýrari. Einstöku hængar sem komnir eru yfir metra í lengd eru í góðum holdum en yfirleitt eru þyngstu fiskarnir á bilinu 90 til 100 sentímetrar. Svona áður en efri árin taka við hjá þeim með tilheyrandi rólegri efnaskiptum.“

Jóhannes nefnir að þyngsti fiskurinn hafi verið hrygna sem hann merkti og fylgdist með í tvö ár eftir það. Hún fékk rafeindamerki af gerð svokallaðra hljóðsendimerkja sem gaf færi á að fylgjast með staðsetningu hennar og um leið sendi merkið einnig upplýsingar um dýpið sem fiskurinn dvaldi á og hitann á því dýpi. Þessi hrygna vó tæplega 13 kíló þegar hún var merkt og var 95 sentímetrar að lengd.

„Urriðanum fjölgar jafnt og þétt og sumir hafa jafnvel áhyggjur af því en náttúran sér sjálf um að halda heilbrigðu jafnvægi í vistkerfum sínum. Þannig að þetta er ekki áhyggjuefni. Miklu fremur fagnaðarefni,“ segir Jóhannes að lokum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert