Tími bleikjunnar runninn upp

Falleg bleikja úr ónefndu vatni. Atli Bergmann lenti í hörku …
Falleg bleikja úr ónefndu vatni. Atli Bergmann lenti í hörku veiði í fjallavatni en þangað er langur gangur. Ljósmynd/BG

Tími bleikjunnar er runninn upp. Með hækkandi hitastigi kemur hún gjarnan á grynnra vatn í leit að æti. Bleikjan er farin að gefa sig á Þingvöllum, í Hraunsfirði, Úlfljótsvatni og fleiri stöðum. Einn þeirra sem hefur verið iðinn við kolann í vor er Atli Bergmann, ástríðuveiðimaður. Hann var í Hraunsfirðinum í gær og landaði tveimur fallegum bleikjum og varð var við fisk víða. „Ég fór fyrst í Hraunsfjörðinn, sumardaginn fyrsta en þá var ekkert líf að sjá enda vatnshitinn ekki nema tveir gráður. Í gær var allt önnur staða. Þegar vindinn lægði sá maður fisk vaka víða og við vorum að taka bleikjur á hefðbundnar púpur, Pheasant tail, Killer og Peacock svo ég nefni einhverjar.“

Atli hefur stundað Þingvallavatnið af krafti í vor og uppskorið góða veiði. „Ég held að þetta snúist nú oftast mest um ástundun. Þegar flugan er í vatninu eru mun meiri líka á að fiskur taki, heldur en ef hún er heima í sófa eða í bílnum. Það held ég að sé aðal galdurinn í þessu,“ sagði Atli í samtali við Sporðaköst.

Atli með fallegan urriða sem hann veiddi í lok apríl …
Atli með fallegan urriða sem hann veiddi í lok apríl í landi þjóðgarðsins. Ástundun er lykilatriði segir hann. Ljósmynd/Aðsend

Flotlína og langur taumur

Hann segist hafa þá sérvisku að hann notar flotlínu þegar hann er að veiða og það sama á við með urriðann í Þingvallavatni. Hann er með mjög langan kónískan taum. Jafnvel tvær stangarlengdir og þá er einmitt gott að vera með kónískan taum því erfitt getur verið að kasta með svo langan taum. „Stundum getur verið gott að nota þyngri flugu og gefa henni tíma til að sökkva. En mjög gjarnan er hann að taka í yfirborðinu.“

Aðspurður um hvaða fluga hafi gefið honum best í urriðanum, nefnir hann Murtuna sem hann hafi fengið hjá Tomma í Veiðihorninu. „Ég fékk flesta á hana en svo líka á Black Ghost og fleiri flugur.“

Mögnuð veiði í fjallavatni

Í síðustu viku fór Atli í fjallavatn sem er nokkuð drjúgur gangur í. Hann gefur ekki upp staðsetningu á vatninu en segir að ef menn hafi samband við hann sé hann reiðubúinn að labba með þeim. „Landeigandinn sem ég fæ leyfi hjá vill ekki að átroðningurinn verði of mikill og það ber að virða.“ Veiðin var mögnuð. Eiginlega fiskur á í hverju kasti. „Við lönduðum átján fiskum á fyrsta hálftímanum og þetta var allt bleikja.“

Fjallavatnið. Ótrúlega fallegt og Atli er til í að fara …
Fjallavatnið. Ótrúlega fallegt og Atli er til í að fara með menn ef þeir hafa samband við hann. Ljósmynd/BG

Fastur punktur í vorveiði hjá Atla er að eltast við urriða á efsta svæði Elliðaánna. Þar gerði hann góða veiði í vor. Fékk þrjá stóra urriða yfir sextíu sentímetra og hrakti burt þrjá veiðiþjófa á svæðinu. Framundan eru svo endalausar silungaferðir hjá honum á næstu dögum. Ósasvæði Vatnsdalsár og Laxá á Ásum og Svartá í Bárðardal og fleiri og fleiri ferðir.

Hann býst við góðu laxveiðisumri. „Það segir mér þessi meðfædda og inngróna bjartsýni veiðimannsins,“ hlær hann að lokum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert