Sannkallaður risalax veiddist í grásleppunet undir Skálanesbjargi í síðustu viku. Fiskurinn mældist 112 sentimetrar og vó fimmtán kíló, eða þrjátíu pund upp á gamla móðinn. Frá þessu var greint á fésbókarsíðu Veiðiþjónustunnar Strengja sem hefur á leigu meðal annars laxveiðiárnar Breiðdalsá og Jöklu fyrir austan. Skálanesbjargið er á milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar og þar með á milli þessara tveggja áa. Þröstur Elliðason eigandi Strengja segir í færslunni; „Þetta er mitt á milli Breiðdalsár og Jöklu sem eru miklar stórlaxaár og freistandi að ætla að hann hafi verið á leið í aðra hvora.“
Strengir upplýsa að veiðimaðurinn hafi verið Haraldur Árnason og er haft eftir honum að þetta hafi verið glæsilegur lax og greinilega af náttúrulegum stofni en skaddaðist aðeins í netinu. Tekið verður hreisturssýni af laxinum og verður mjög forvitnilegt að sjá hvað kemur þar í ljós.
Laxar hafa sést í nokkrum laxveiðiám síðustu daga og gefur það góð fyrirheit um sumarið. Vorið hefur verið milt og fyrr á ferðinni en oft er. Þannig skrifar Þröstur Elliðason í þessu samhengi.
„Við opnum Jöklu 27. júní og Breiðdalsá 1. júlí og miðað við hvernig vorar þarna fyrir austan lofar það góðu með startið. Til dæmis er Jökla strax komin í sumarvatn 20-30 rúmmetra á sekúndu miðað við að á venjulega vori væri eðlilegt yfir vatnsmagn yfir 200 rúmmetrar á þessum tíma! Og vatnshitinn er strax komin í 9-10 gráður og ekkert því til fyrirstöðu að laxi gangi hratt upp Jöklu í þessum skilyrðum. Reyndar fullyrti bóndi einn við ána að hafa séð lax stökkva þar fyrir helgi er hann var á ferð við Jöklu en kannski var um að ræða niðurgöngulax, en hver veit, gæti líka bara verið mættur óvenjusnemma,“ skrifaði Þröstur.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |