Það voru þeir feðgar Haraldur Árnason og Stefán Haraldsson á Björgu NS 11 sem veiddu risalaxinn undir Skálanesbjargi þann 30. apríl. Sporðaköst náðu tali af Haraldi í morgun og hann sagðist ekki búinn að ákveða hvað hann gerði við fiskinn. „Hann er bara til og var frystur beinn og flottur á bretti. Ég er ekkert farinn að spá í hvað ég geri við hann, maður er bara á fullu í grásleppunni og búinn að vera fjörutíu daga í beit á sjó,“ sagði Haraldur í samtali við Sporðaköst. Haraldur sagðist telja fiskinn vera ótrúlega snemma á ferðinni, en hann veiddist 30. apríl.
Laxinn stóri sem mældist 112 sentímetrar og fimmtán kíló var sprækur. „Hann kom að innanverðu við Skálanesbjargið sem er að sunnanverðu í mynni Seyðisfjarðar. Hann kom í netið á einhverjum ellefu föðmum. Ég held að hann hafi komið í netið þegar ég var draga það inn. Hann var svo dýrvitlaus.“
Haraldur segir að það hafi verið sólskin og logn þennan eina dag sem þeir hafa verið á sjó. „Það voru engin netaför eða neitt á honum. Hann var ekkert búinn að þvælast í netinu. Ég hélt að hann myndi slíta það áður en við næðum honum um borð. Það eru mikil átök í svona karli.“
Enn sem komið er hefur enginn falast eftir fiskinum og eins og Haraldur bendir á þá á að hirða allan meðafla á grásleppunni.
Þetta er virkilega fallegur fiskur.
„Já, hann er bara eins og flottur íþróttamaður. Ekkert smá stæltur og flottur. Þessi er ekki kviðsíður og uggaskemmdur eins og eldisfiskar.“
Þeir feðgar sáu ekki fleiri laxa og Haraldur segir þetta eina laxinn sem hann hefur fengið frá því hann hóf að stunda grásleppu fyrir fimm árum.
„Vorum ekkert að kyssa hann“
„Það var ekkert annað í stöðunni en að drepa hann. Við vorum ekkert að kyssa hann og segja honum að fara heim aftur. Ég er ekkert fyrir svoleiðis veiðiskap. Annað hvort er ég að veiða eða ekki. Ég er ekki í því að pína og sleppa. Hef aldrei skilið þá áráttu. Fiskar hafa tilfinningu og þeir kippast við ef þú potar í þá. Þeir berjast fyrir lífi sínu í langan tíma og svo kemur veiðimaður í næsta holli og krækir í hann aftur. Hvar eru allir dýraverndunarsinnarnir í þessu? Mér finnst þetta ekki mannúðlegar aðfarir. Mér var kennt í gamla skólanum að ef þú værir að veiða þá ætti maður að aflífa bráðin sem fyrst og gera það mannúðlega. Ég er ekki sammála svoleiðis veiðimennsku. Þá er betra að láta skepnurnar í friði,“ sagði Haraldur.
Hann segir grásleppuvertíðina hafa gengið ágætlega. „Ég er núna að standsetja seinni bátinn, færa yfir spil og svoleiðis. Það voru komin einhver tuttugu tonn á Björgu. Rauðmaginn var líka ágætur á undan. Það var alveg þokkalegt.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |