„Villti laxinn í útrýmingarhættu“

Sjaldséð sjón við ána Dee í Skotlandi. Árni Baldursson sleppir …
Sjaldséð sjón við ána Dee í Skotlandi. Árni Baldursson sleppir hér einum af þeim þremur löxum sem hann hefur veitt á tólf dögum. Veiðin er ekki svipur hjá sjón. Ljósmynd/Aðsend

Árni Baldursson sem án efa er einn reynslumesti veiðimaður á Íslandi birtir mikla eldræðu á facebook síðu sinni í dag. Hann segir villta laxinn í raunverulegri útrýmingarhættu. Það þarf enginn að efast um að Árni Baldursson þekkir vel til í nágrannalöndunum og þar segir hann stöðuna vera sífellt versnandi þegar kemur að villtum laxi.

„Ég hef verið að ferðast víða um Evrópu og Kanada til að veiða lax síðustu 30 árin. Á þessum tíma hefur ástandið á laxinum farið æ versnandi og honum fækkað ár frá ári. Núna frá því snemma í vor hef ég verið í Skotlandi í nokkrar vikur, þar er ástandið þannig að laxveiðin sumarið 2018 var sú versta í sögu Skotlands í yfir 60 ár og núna vorið 2019 er staðan ennþá verri! Síðustu daga hef ég verið að veiðum í Írlandi, þar er sama uppi á teningnum, sem dæmi af einni bestu laxveiðiá Írlands, Blackwater, þar hefur veiðin aldrei verið minni frá upphafi skráninga. Við erum að tala um 80% hrun í vorlaxastofni árinnar síðustu árin. Sömu sögu er að segja frá flestum öðrum ám Írlands. Rússland ... þar hefur veiðin hrunið síðustu 4 árin. Í Noregi er sama sagan, þar er mikil hnignum í laxastofnunum,“ skrifar Árni.

Árni fer yfir þær skýringar sem hann telur líklegastar. Hann nefnir fyrst stórfellda netaveiði í mörgum þessara landa. Þeim hefur nú víða verið hætt, en Árni telur að það hafi gerst of seint. Gengið hafi verið of nærri mörgum stofnum. Þá nefnir hann stórfellt eldi á laxi í sjókvíum. Og hann skrifar:

Árni Baldursson með lax úr Stóru-Laxá. Það eru ekki margir …
Árni Baldursson með lax úr Stóru-Laxá. Það eru ekki margir menn sem hafa jafn mikla reynslu af laxveiði í Evrópu og Árni Baldursson. Þegar hann lemur svo kröftuglega í borðið er ástæða til að hlusta. www.lax-a.is

Fólk agndofa yfir heimsku okkar

„Hér heima á Íslandi hreykjum við okkur af því að við séum „ Mekka „ laxveiðinnar, en hægan hægan það er hætt við að það verði ekki lengi. Ákveðið hefur verið að fara eins að og nágrannalönd okkar gerðu og opna upp alveg glórulaust laxeldi í sjóeldiskvíum víða í okkar fallegu fjörðum. Hingað til lands má ekki koma með plöntur erlendis frá, ekki flytja inn hunda nema þeir séu 4 vikur í sóttkví, ekki hrátt kjöt, en það er í lagi að flytja inn norskan eldislax sem sleppur reglulega úr kvíunum og því miður oft í miklu magni. Þessi norski lax gengur svo í árnar okkar og blandast okkar íslensku stofnum, ber með sér gríðarlegt magn af lús. Margt fólk bæði í Evrópu og víðar um heiminn kynnir sér þessi mál ákaflega vel og fylgist grannt með því sem er að gerast hér heima á Íslandi. Þetta fólk er svo agndofa yfir heimsku okkar Íslendinga og virðingarleysi fyrir okkar náttúru, sem við viljum endilega telja öðrum og okkur sjálfum trú um að sé hin hreinasta í heimi! Margir hreinlega tárast þegar verið er að tala um þessi mál, enda tær náttúra á algeru undanhaldi í heiminum og við ætlum sömu leið og of margir aðrir með okkar. Hvernig getum við verið svona heimsk ... já já það er talað um milljarða og milljarða, sem er hlálegt í samanburði við verðmæti íslensku náttúrunnar og laxveiðistofnana okkar. Það eru óafturkræf verðmæti sem ekki er einu sinni hægt að reikna út ... svo mikið verður tjónið.“

Hann segir útlendinga agndofa yfir því heimsku okkar.
Hann segir útlendinga agndofa yfir því heimsku okkar. Ljósmynd/ÁB

Árni ræðir að lokum þá staðreynd að netaveiði á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár er enn stunduð af krafti og má segja að Árna blöskri. Hann bendir á að sextíu prósent af laxi sem veiðist á þessu víðfeðma svæði komi í net. Hann gagnrýnir líka harðlega að ekki skuli vera nein stjórnun á veiðunum, þegar kemur að magni. Árni er sjálfur landeigandi við Sogið. Pistil hans er hægt að lesa í heild sinni inn á facebook síðu hans.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert