Heimsmeistaraeinvígið í laxveiði

Þessi mynd er tekin af þeim félögum árið 2001 þegar …
Þessi mynd er tekin af þeim félögum árið 2001 þegar þeir ríða fram í Starir í Kjarrá. Þórarinn er til hægri og á undan, eins og vera ber. Ljósmynd/Lax-á

Tóti tönn stórveiðimaður er án efa sá núlifandi maður í heiminum sem veitt hefur flesta Atlantshafslaxa á stöng. Samtals eru þeir 20.688 talsins. Ef einhver veit um mann sem veitt hefur fleiri væri Sporðaköstum ánægjuefni að frétta af honum. Við ræddum við þann sem fylgir fast á eftir og sennilega sá eini á möguleika á að ná Tóta tönn. Þetta er Árni Baldursson.

Líkast til ert þú öðru sæti. Hver er talan hjá þér Árni?

„Sextán þúsund sjö hundruð fimmtíu og sex,“ svarar hann án þess að hika.

Heldurðu að þú náir Þórarni?

„Já já. Ég næ honum. Þetta hefur minnkað hjá mér eins og hjá honum, í tölum talið en ég er að veiða að meðaltali 250 laxa á ári,“ segir Árni í samtali við Sporðaköst. Besta sumarið hans var 788 laxar og mörg ár hefur hann farið yfir 500 veidda laxa. „Þú sérð það að á tuttugu árum eru það fimm þúsund laxar. Heyrðu. Ég þarf sennilega að gefa aðeins í,“ hlær Árni.

Eins og staðan er núna hefur Þórarinn Sigþórsson 3.932 laxa forskot. Tóti er eldri og er alveg ljóst að báðir eru miklir keppnismenn þannig að þessu einvígi verður klárlega fram haldið. Það sem er athyglisvert í málinu líka er að báðir halda góð reikningsskil.

Hefurðu tölu Árni hversu margir fiskar eru yfir tuttugu pund?

„Ég er með þetta allt skrifað niður. Þeir eru 685 yfir tuttugu pund. Ég er náttúrulega búinn að halda til í Rússlandi og Noregi í áratugi. Ég veiddi þarna vikum saman og fór stundum yfir hundrað laxa á vori. Og þá var meðalvigtin sum árin um 22 pund. Sko meðalvigtin.“ Hann heldur áfram; „Svo er 41 yfir þrjátíu pund og fjórir yfir fjörutíu pund og einn yfir fimmtíu,“ hann skellir sjálfur upp úr. Hann segist reyndar ekki getað sannað að þessi yfir fimmtíu pund sé svo þungur. Vigtin tók ekki nema fjörutíu pund og skall í henni. En hann á mynd af fiskinum og það dugar honum.

Nú þekkir þú þetta alþjóðlega veiðimannasamfélag vel. Eru einhverjir búnir að veiða meira af Atlantshafslaxi en þú og Tóti?

„Nei. Enginn og enginn nálægt okkur. Auðvitað er mikið af hörkuveiðimönnum á Íslandi en ég veit ekki um neinn sem er í þessum tölum.“

Þannig að Tóti á heimsmetið og þú andar ofan í hálsmálið á honum?

„Já ég er alveg að narta í hælana á honum. En hann á sannarlega heimsmetið, allavega enn sem komið er.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert