Sannkallað silungavor í blíðunni

Falleg bleikja hefur tekið Peacock með bleikum kraga í Þingvallavatni.
Falleg bleikja hefur tekið Peacock með bleikum kraga í Þingvallavatni. Ljósmynd/Ríkarður Hjálmarsson

Það er sannkallað silungavor um allt land. Þetta mildasta vor í áratugi hefur svo sannarlega skilað sér í meiri silungsveiði en menn eiga að venjast í maí. Þingvallavatn hefur á köflum gefið magnaða veiði og hvert metið á fætur öðru hefur fallið þar í vor. Fyrst var það urriðinn sem veiddist sem aldrei fyrr, bæði í þjóðgarðinum og einnig á svæðum í útleigu. Bleikjan hefur líka verið að taka fyrr en venjulega og hafa farið endalausar sögur af veiðimönnum sem gert hafa þar góða veiði.

Charlie Aubee með þann stóra úr Presthvammi. Mældi 71 sentímetri …
Charlie Aubee með þann stóra úr Presthvammi. Mældi 71 sentímetri og tók púpu númer 18. Ljósmynd/MÞH

Úlfljótsvatn, Elliðavatn og fleiri vötn í nágrenni borgarinnar hafa verið að gefa góða veiði, aðallega bleikju en vissulega hafa urriðar einnig verið í bland.

Sextíu bleikjur í Köldukvísl

Ríkarður Hjálmarsson er iðinn silungsveiðimaður og hefur gert góða veiði í Þingvallavatni í vor. Hann skellti sér ásamt félögum í Köldukvísl á sunnudag. „Það er engu logið með Köldukvísl. Við lönduðum samtals sextíu bleikjum og nokkrum urriðum. Áttum magnaðan dag og mest var veiðin í Ósnum. Mikið af þessari bleikju var væn og afskaplega vel haldin,“ sagði Ríkarður í samtali við Sporðaköst. Það sem vakti sérstaka athygli Ríkarðs var að bleikjan tók helst stærri púpur. „Ég fékk ekki högg á tólf, fjórtán og sextán. Helst tóku þær númer átta. Það kom mér á óvart.“ Þær púpur sem best voru að virka voru Pheasant Tail og að sjálfsögðu Krókurinn.

Köldukvíslarbleikja böðuðu í sólarspeglun. Eins og sést á myndinni tók …
Köldukvíslarbleikja böðuðu í sólarspeglun. Eins og sést á myndinni tók hún Pheasant Tail númer 8. Þeir félagar gerðu hörkuveiði síðasta sunnudag. Ljósmynd/Ríkarður Hjálmarsson

Sjóbleikja og birtingur í Lónsá

Síðustu dagar hafa verið mjög góðir í Lónsá á Langanesi. Þetta er kynngimögnuð á og hefur að geyma allar þær tegundir sem veiðimenn sækjast eftir. Matthías Þór Hákonarson er umsjónarmaður árinnar og sagði hann veiðina hafa verið frábæra upp á síðkastið. „Við höfum verið að taka mikið af fallegum sjóbirtingi á ósasvæðinu og nú er sjóbleikjan komin og við höfum séð hana bunka sig í nokkrum hyljum. Hún er í stórum torfum,“ sagði Matthías Þór Hákonarson í samtali við Sporðaköst. Hann hefur einnig með að gera urriðasvæðið í Laxá í Aðaldal sem kennt er við Presthvamm. Þar hófst veiðin fyrir rúmri viku og þar er sömu að segja. Veiðin fer af stað með krafti og er urriðinn algerlega tilbúinn í slaginn. „Þó svo að lofthiti hafi sveiflast mikið þá hefur vatnshitinn verið miklu stöðugri en maður á að venjast á þessum tíma. Vorleysingar sem oft standa yfir í dágóðan tíma eru að baki og kláruðust bara á nokkrum dögum. Þannig að við höfum verið að veiða vel hvort sem er á hlýju eða köldu dögunum.“ Matthías Þór háfaði 71 sentímetra urriða á dögunum fyrir Charlie Aubee. „Þetta er stærsti urriði sem ég hef séð hér í langan tíma og þetta var hörkuslagur. Hann tók Copper John númer átján,“ sagði Matthías.

Hann er á. Urriði hefur tekið púpu í Presthvammi í …
Hann er á. Urriði hefur tekið púpu í Presthvammi í Laxá. Ljósmynd/Aðsend

Þetta er í takt við það sem er að gerast víða um land og skemmst að minnast þess að bleikja hefur verið að veiðast fyrr en endranær í Fögruhlíðarósi og Breiðdalsá, fyrir austan.

Þá hefur silungsveiði verið með ágætum á ósasvæðum húnvetnsku ánna, bæði í Vatnsdalsá og Laxá á Ásum svo einhverjar séu nefndar.

Færist fjör í leikinn

Nú eru ekki nema fjórir dagar í að fyrsta laxveiðiáin opni. Það er hið mikla fljót Þjórsá og þar er laxinn mættur í nokkru magni. Fljótlega eftir þetta opna fleiri ár í Borgarfirði og má því búast við að fjör færist í leikinn. Raunar ganga nú þegar sögur af því að laxar hafi veiðst og er þá sérstaklega talað um lax sem á að hafa veiðst í Brennunni þann 10. maí. Sögur hafa borist víðar að, en ekki verið staðfestar. Lax er víða kominn í ár og má nefna, Blöndu og Elliðaárnar en þar hefur ekki sést lax í maí í háa herrans tíð. Þá er staðfest að laxar hafa sést í Norðurá og Þverá.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert