Fyrsti laxinn úr Blöndu kom á land klukkan tuttugu mínútur yfir sjö í morgun. Það var Brynjar Þór Hreggviðsson sem landaði honum og var það 78 sentimetra löng hrygna. Hún var grálúsug og fékk hún frelsi. Veiðistaðurinn var Dammur að sunnanverðu. Það er kalt og hvasst við Blöndu núna en veiðimenn láta það ekki á sig fá. Fín veiði var í morgunsárið og eftir fyrsta klukkutímann voru flestar stangir komnar með lax. Reynir Sigmundsson tók gríðarfallega hrygnu sem mældist 93 sentimetrar á Breiðunni að sunnanverðu. Hrygnan tók rauðan Frigga. Reynir var að sunnanverðu en á móti honum var Árni Baldursson nýbúinn að landa laxi. Þrír laxar á fyrsta klukkutímanum. Raunar er nokkuð langt frá því að fyrstu laxarnir sáust í Blöndu og því var viðbúið að opnun yrði góð.
Á meðan menn hafa víða áhyggjur af vatnsskorti er því ekki að heilsa í Blöndu. Þvert á móti eru skilyrðin frábær og áin er með tærara móti við þessar aðstæður. Þverá er einnig að opna í dag og flytjum við fréttir af henni um leið og þær berast.
Nú um hádegi var búið að landa sjö löxum úr Blöndu og missa þrjá. Hér má líka sjá mynd af Brynjari Þór Hreggviðssyni, sölustjóra Stangaveiðifélags Reykjavíkur að sleppa fyrsta laxi sumarsins í Blöndu. Fiskurinn tók maðk en þar sem hann var lauslega tekinn ákvað Brynjar að sleppa honum og gekk það greiðlega fyrir sig.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |