Kjarrá í Borgarfirði opnaði í morgun af hópi erlendra veiðimanna. Einstaklega erfiðar aðstæður eru við ána vegna vatnsleysis og því til viðbótar er stífur, kaldur norðaustan vindur með glampandi sólskini og er veiðin eftir því.
Vatnsmagn árinnar er með þeim hætti að margir veiðistaðir sem alla jafna eru góðir eru ekki virkir sökum vatnsleysis. Þeir laxar sem virðast hafa náð að komast upp áður en vatnið lækkaði svo mikið halda til í dýpstu veiðistöðum árinnar og mjög varir um sig.
Að þessu sinni var opnunin í Kjarrá seld til fjölþjóðlegs hóps veiðimanna sem koma frá Ástralíu, Englandi og Noregi og taka þeir þessu afbrigðilega ástandi með jafnaðargeði enda allt vanir veiðimenn.
Þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður náðist þó einn lax á land í morgun á veiðistaðnum Efri Johnsson af norska veiðimanninum Per Mikkelssen og var það tæplega 80 cm hrygna sem tók litla sunray shadow túpu.
Aðeins lítill hluti þessa langa veiðisvæðis var veiddur í morgun á fjórar veiðistangir og verður efsti og neðsti hluti þess kannaður eftir hádegið.
Umræddur Per er hér á landi með Björn bróður sínum en þeir eru svokallaðir „boatmen“ og landeigendur af aðalveiðisvæði Alta árinnar í Noregi sem er án efa frægasta laxveiðiá heims þar sem margir af stærstu Atlantshafslöxum hafa veiðst í gengum tíðina. Er þetta svæði rekið af félaginu Alta Laksefiskeri Interessensskap sem stofnað var árið 1725 og er það um 27 kílómetra langt svæði sem aðeins er veitt með 10 stöngum.
Eru þeir Björn og Per yfirleiðsögumenn á svæðinu og hafa yfir 25 ára reynslu til viðbótar að hafa alist upp á bökkum árinnar. Eru þeir kallaðir „boatmen“ því mikið er veitt af bátum í ánni sem er mikið stórfljót og getur verið gríðarlega straumhörð.
Norsku bræðurnir eru því við gjörólíkar aðstæður þessa daganna eins og ástandið er núna í Borgarfirðinum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |