Sauðafellsvatn á Landmannaafrétti verður opnað almenningi frá og með morgundeginum. Ný heimasíða hefur farið í loftið saudafellsvatn.is og þar er hægt að nálgast allar upplýsingar.
Vatnið er um margt sérstakt. Eldfjallið Hekla gnæfir yfir vatnið og gerir umhverfi þess tignarlegt og hvergi er stingandi strá að finna í nágrenni vatnsins enda markað af eldgosum síðustu áratuga.
Í vatninu er urriði en hann er einstakur fyrir fjallavatn, því hann er af Grenlækjarkyni, sem sagt sjóbirtingur. Þrjátíu þúsund seiðum var sleppt í vatnið fyrir ríflega tuttugu árum og hefur vatnið sannað sig í því að vera sjálfbært. Uppsprettur eru í vatninu og myndast við það straumur sem virðist skapa skilyrði til hrygningar. Sauðafellsvatn er í raun gígur og var fisklaust fyrir aldamótin.
Valtýr Valtýsson, stjórnarmaður í Veiðifélagi Landmannaafréttar, sagði í samtali við Sporðaköst að grannt hefði verið fylgst með vatninu hin síðari ár og nú væri það mat manna að gera ætti þessa tilraun. „Fiskurinn hefur farið stækkandi, sérstaklega síðustu ár og við fengum fiskifræðinga til að rannsaka vatnið, árganga af fiski, fæðu og fleira slíkt og þeirra niðurstaða var afdráttarlaus, að vatnið væri sjálfbært."
Valtýr segir að fyrsta markmiðið sé að ganga ekki á gæði vatnsins sem stangaveiðivatns og því hafi verið tekin sú ákvörðun að eingöngu er veitt á flugu í vatninu. „Það var niðurstaða stjórnar að selja aðeins fimm stangir í vatnið á dag og er þar tekið mið af ráðleggingum fiskifræðinga. Við viljum byrja rólega og fylgjast með."
Fiskurinn í Sauðafellsvatni er gerólíkur fiskinum í Veiðivötnum. Sjóbirtingslagið leynir sér ekki og hann er ekki jafn hnöttóttur og nágranni hans í hinum þekktu Veiðivötnum. Fiskurinn er samt afar sterkur og sérstaklega tekið til þess hversu rauður hann er í holdið og þykir einkar bragðgóður.
Á dögunum efndu þeir Valtýsfeðgar til kynningarferðar í vatnið og fóru meðal annars Vargurinn, hin þekkta veiðisamfélagsmiðlastjarna, og veiðibræðurnir Gunnar og Ásmundur Helgasynir. Var fjör og skemmtu menn sér vel þó að veiðin hafi verið dræm við erfið skilyrði, sól og hvassa norðanátt og moldrok af hálendinu.
Ekki er kvóti á veiðinni og ekki gerð krafa um sleppingar en Valtýr segir öllum að sjálfsögðu heimilt að sleppa þeim fiski sem menn vilja.
Allar stærðir af urriða veiðast í vatninu og var sá stærsti í fyrra veiddur á stöng ellefu pund. Mælt er með sökklínum þegar veitt er í Sauðafellsvatni og helsta von um fisk er þar sem marbakkinn byrjar og er hann víða stutt frá landi.
Hægt er að panta veiðileyfi á netinu og eina skyldan sem hvílir á veiðimönnum er að skila skýrslu rafrænt að lokinni veiði.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |