Laxveiðiárnar opna nú hver af annari. Ytri Rangá tók vel á móti fyrstu veiðimönnum í morgun og var níu löxum landað á fyrstu vaktinni. Flestir tóku þeir litlar HKA-Sunray flugur. Mest líf var á Rangárflúðum en þar landaði Olaf Furre leigutaki fimm löxum í morgun.
„Þetta var afskaplega ljúft hjá okkur, víða fiskur og glampandi sól. Hann tekur mjög vel í sólinni í Ytri Rangá,“ sagði Jóhannes Hinriksson framkvæmdastjóri leigutaka í samtali við Sporðaköst. Þá voru fiskar að veiðast á svæðunum fyrir neðan og ber það vitni um að lax er í göngu. Þrír af þeim níu löxum sem veiddust voru smálaxar og er hann að mæta mjög snemma þetta árið.
Í Víðidalsá og Fitjá var einnig byrjað að veiða í morgun. Veitt er á átta stangir og var fjórum löxum landað og nokkrir misstust. Fyrsta laxinn veiddist í Kerinu í Fitjá snemma í morgun. Þá veiddust tveir á neðsta svæðinu í veiðistaðnum Þorra. Fjórði fiskurinn veiddist í Ármótum. Flugurnar sem voru að gefa voru Black Brahan, Hitch, og Sunray.
Aðstæður í Víðidalnum er um margt erfiðar sérstaklega vegna vatnsleysi. Þó hafa rigningar síðustu daga aðeins lagað ástandið. Stærsti fiskurinn í morgun mældist 82 sentímetrar og voru hinir fiskarnir áþekkir.
Veiði hefst í Vatnsdalsá síðar í dag.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |