Hörkugóð veiði hefur verið í Brennunni í Borgarfirði, síðustu daga. 28 löxum hefur verið landað á svæðinu síðustu fimm vaktir, eða í tvo og hálfan dag. Þetta eru langþráðar fréttir og færa sönnur á það að fiskur er að mæta og það er fyrst og fremst vatnsleysi sem kemur í veg fyrir að hann gangi upp.
Nánast allir laxarnir sem veiddust í Brennunni eru tveggja ára fiskar úr sjó og virkilega vel haldnir. „Öllum þessum fiski var sleppt og það voru bara örfáir smálaxar í þessu. Mér finnst hins vegar bestu fréttirnar í þessu vera að þarna sést svo áþreifanlega hversu stórlaxinn er að sækja í sig veðrið hér í Borgarfirðinum,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson leigutaki.
Ingólfur segir að mjög mikið sé af laxi á svæðinu og viðbúið að hann gangi af stað um leið og fer að rigna og vatnsborð hækkar.
Sökum vatnsleysis er afar dræm veiði í mörgum af helstu laxveiðiám landsins. Það ástand mun ekki lagast fyrr en hressileg rigning lætur sjá sig.
Brennan er neðsta svæðið í Þverá, þar sem hún rennur út í Hvítá. Veitt er á þrjár stangir í Brennunni.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |