Kótelettur í raspi, brauðterta af gamla skólanum og urriðar voru í aðalhlutverki í veiðihúsinu Þrándargili á opnunardegi Laxár í Dölum. Veiði hófst í morgun og eru aðstæður einkar erfiðar eins og svo víða með laxveiðiár á Vestur- og Suðurlandi.
Átta urriðar veiddust og sáust nokkrir laxar, meðal annars í Neðri-Kistu, Papa, Þegjanda og Sólheimafossi. Stefán Sigurðsson er einn þeirra sem er við opnunina. „þetta eru virkilega erfið skilyrði og áin er afar lítil. Vonandi gengur veðurspá næstu viku eftir og fer að rigna. Áin þarf nauðsynlega á því að halda,“ sagði Stefán í samtali við Sporðaköst.
Hádegismaturinn var ekki af verri endanum. Sara Pétursdóttur eldar ofan í mannskapinn og bauð upp á kótelettur í raspi með öllu tilheyrandi. Þá lagaði Sara magnaða brauðtertu að sögn Stefáns. „Ef einhver kann á rasp og majó þá er það Sara Pétursdóttir.“
Athygli vakti að majónestertan var skreytt alvöru laxaflugum og gátu gestir skorið sér sneið með þeirri flugu sem þótti mest spennandi. Ljóst er að Sara sló í gegn hjá hollinu.
Stefán Sigurðsson sagðist eiga von á því að þegar liði á daginn og sólin hyrfi bak við ský gæti eitthvað skemmtilegt farið að gerast.
Hin kyngimagnaða Hafralónsá opnaði í morgun. Fyrsti fiskurinn veiddist fljótlega en litlar upplýsingar liggja fyrir. Nóg vatn er í Hafralónsá og er hún ekki plöguð af þurrkum eins og ár í öðrum landshlutum. Hafralónsá rennur í miklum gljúfrum og er þar mikil náttúrufegurð. Áin fóstrar einnig rígvænar bleikjur og eru þær eftirsóknaverðar fyrir marga veiðimenn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |