Stórstreymi er um miðja vikuna og vilja menn sjá vaxandi smálaxagöngur í þann straum. Ljóst er að sumarið með tilliti til laxveiðinnar ræðst af göngum í þennan straum og þann næsta sem er rétt eftir miðjan mánuðinn. Víða hefur frést af ógnarstórum hængum sem nú eru að ganga með smálaxinum. Einn slíkur sást í Brúarstreng í Laxá í Dölum, Sett hefur verið í nokkra af þessum fiskum í Víðidalsá en einungis einn komið á land, eins og greint var frá í Sporðaköstum um helgina.
Elliðaárnar fara heldur ekki varhluta af þessu og þar hefur hlutfall stórlaxa verið óvenjuhátt. Á hinn bóginn bíða menn í ofvæni eftir að sjá hvað gerist með smálaxinn á næstu dögum.
Gunnar Egill Sigurðsson var við veiðar í Hafralónsá í Þistilfirði í síðustu viku. Hann setti í mikla skepnu í veiðistaðnum Þrælnum. Skemmst er frá því segja að fiskurinn rauk niður flúðirnar fyrir neðan hylinn og lauk þessari viðureign ekki fyrr 500 metrum neðar og þrjátíu mínútum síðar. Fiskurinn tók Sunray shadow með miklum látum og mældist 97 sentimetrar.
Gunnar sagði í samtali við Sporðaköst að þeir hefðu sama daginn misst tvo aðra stórlaxa. „Hér er mikið vatn og tökurnar eru grannar. Það er líka gaman að segja frá því að mikið ber á afar fallegum sjóbirtingi í ósnum og eru margir þeirra á bilinu fjögur til fimm pund,“ sagði Gunnar.
Fyrsti laxinn sem veiddist í Soginu og Sporðaköst hafa heyrt af, kom af efsta veiðisvæði árinnar, Syðri-Brú. Það var Jóhann Birgisson sem veiddi hann á þeim þekkta veiðistað Landaklöpp. Laxinn mældist 85 sentimetrar og var hnausþykkur og eftir því sterkur. Afar spennandi verður að fylgjast með Soginu í sumar en þar var mikil aukning í veiði í fyrra. Silungsveiðin í Soginu var virkilega góð í vor og var mörgum stórbleikjum landað, sérstaklega í landi Ásgarðs.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |