Lögreglan lokaði stórlaxaá

Hilmar Hansson með 28 punda hæng úr Yokanga. Þessi fiskur …
Hilmar Hansson með 28 punda hæng úr Yokanga. Þessi fiskur var veiddur fyrir tveimur árum í veiðistaðnum Beach. Í baksýn má sjá bát eins og notaðir eru í Yokanga. Þeir hafa nú allir verið teknir til rannsóknar af lögreglu þar í landi. Ljósmynd/Aðsend

Einni þekktustu stórlaxaá Kólaskagans í Rússlandi hefur verið lokað út sumarið. Þetta er áin Yokanga sem býsna margir Íslendingar hafa veitt. Ástæðan er lögreglurannsókn á andláti leiðsögumanns sem varð bráðkvaddur við ána með veiðimanni. Samkvæmt heimildum Sporðakasta eru tvær deildir rússnesku lögreglunnar að rannsaka málið. Önnur deildin einbeitir sér að sjálfu andlátinu en hin er að taka út öll öryggismál á veiðisvæðinu.

Hópur Íslendinga var á leiðinni til Yokanga í gegnum Múrmansk en þeirri för hefur verið aflýst. Milligöngumaður um ferðina var Hilmar Hansson, sem ötullega hefur kynnt þetta veiðisvæði fyrir íslenskum veiðimönnum í á annan ártug.

„Auðvitað var þetta sjokk og ég þekkti þennan leiðsögumann persónulega og hann var vinur minn. En rússneska stjórnsýslan er þunglamaleg og því tekur þetta nokkrar vikur og þá er þessu sjálfhætt, en þeir tóku alla báta og búnað sem þarf við veiðarnar á meðan að á rannsókn stendur,“ sagði Hilmar Hansson í samtali við Sporðaköst.

Hilmar og félagar keyptu veiðileyfi sín í gegnum veiðileyfasalanum Roxtons Fishing. Hilmar segir að viðbrögð þeirra hafi verið til fyrirmyndar. „Þeir buðu okkur veiðileyfi í öðrum ám og ef menn vildu það ekki var umsvifalaust boðið upp á endurgreiðslu á öllum útlögðum kostnaði, hvort sem það var veiðileyfi, flug eða annað.“

Um er að ræða efri hluta Yokanga en neðri hlutann hefur Árni Baldursson verið að selja veiðimönnum leyfi í og hefur sumarið gengið frábærlega. Lögreglurannsóknin nær ekki til neðri Yokanga. Hilmar staðfesti að þetta hefði verið eitt best stórlaxaár sem menn hafi séð í Yokanga í háa herrans tíð. „Það gerir þetta allt enn meira svekkjandi, en auðvitað er manni efst í huga að hafa misst góðan vin.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert