Rannsóknir á laxalús

Ferskur lax þakinn laxalús.
Ferskur lax þakinn laxalús. surna.no

Nýlega lauk Eva Dögg Jóhannesdóttir MSc-verkefni við Háskólann á Hólum um laxalús á villtum fiskum á Vestfjörðum. Greint er frá þessu á vef Landssambands veiðifélaga. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að lúsasmit sé með öðrum hætti á villtum sjóbirtingi en á eldislaxi.

Fram kemur að lýsnar skiptast í tvo hópa, laxalús (Lepeophtheirus salmonis) og grálús (Caligus elongatus ), en þær eru náttúruleg sníkjudýr á laxfiskum í sjó. Þótt alla jafnan séu þær kallaðar lýs þá er þó ekki um eiginlegar lýs að ræða, heldur krabbadýr sem finnast um allt norðurhvelið. Grálúsin finnst þó eingöngu í Norður-Atlantshafi, en laxalúsin er einnig í Kyrrahafinu.

Þetta eru náttúruleg sníkjudýr sem drepast fljótlega eftir að villti fiskurinn gengur upp í ferskvatnið úr sjó.

Lýsnar nærast á slímhúð, roði og blóði fiskanna. Einar og sér geta þær valdið dauða fiska séu þær í miklum mæli en geta einnig borið með sér aðra sýkla. Hafa þær valdið miklum skaða í sjókvíaeldi á löxum þar sem þeir eru í miklum þéttleika í kvíunum. Valda þær streitu hjá fiskunum og opna sár sem opna þá leiðir fyrir annars konar sýkingar.

Rannsóknir sýna að á svæðum þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er stundað eru villtir laxfiskar meira smitaðir af sjávarlús, einna helst laxalús, heldur en á svæðum án eldis.

Eva Dögg segir í samtali að þar sem eldi á laxi í sjó sé tiltölulega ný atvinnugrein á Íslandi sé mikilvægt að afla þekkingar um sjávarlýs á villtum laxfiskum. Lúsasmit hafi áður verið kannað á villtum laxfiskum í Arnarfirði árið 2014 og í Tálknafirði, Patreksfirði, Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi (við Kaldalón) árið 2015.

Laxeldi var stundað í öllum fjörðum sunnanverðra Vestfjarða árið 2017. Í verkefni Evu var lúsasmit villtra laxfiska, sjóbirtings og sjóbleikju, kannað í öllum fjörðum á sunnanverðrum Vestfjörðum frá júní til september 2017. Niðurstöðurnar voru svo bornar saman við lúsatalningar í kvíum á svæðinu, sem og fyrri athuganir á villtum laxfiskum.

Fram kom hjá Evu Dögg að eingöngu sjóbirtingur og sjóbleikja hafi verið í hennar rannsókn þar sem mun erfiðara sé að nálgast villtan lax í sjó. Niðurstöður rannsóknar hennar sýna aukið smit villtra laxfiska á svæðinu borið saman við fyrri athuganir og gefa vísbendingu um neikvæð áhrif á þessa stofna. Það ber að hafa í huga að hitastig sjávar veturinn fyrir rannsókn var um tveimur gráðum hærra samanborið við fyrri ár sem gefur lúsinni betri vaxtarskilyrði.

Einnig kom í ljós að lúsategundirnar tvær virðast smita eldislaxa og villta sjóbirtinga á ólíkan hátt. Þannig virðist eldislaxinn safna að mestu grálús meðan villtu sjóbirtingarnir söfnuðu laxalús. Eva Dögg sagði að þessar niðurstöður hefðu verið hvað merkilegastar.

Nánar má kynna sér þetta verkefni hér.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka