Hallarbylting í Eystri Rangá

Myndarlegur lax úr Eystri Rangá. Áin er aflahæsta laxveiðiá sumarsins …
Myndarlegur lax úr Eystri Rangá. Áin er aflahæsta laxveiðiá sumarsins en þar var gerð hallarbylting í gær af landeigendum og nýr formaður og stjórn kjörin. Tekið af facebook síðu Eystri Rangár

Nokkrir landeigendur að Eystri Rangá nýttu sér í gær ákvæði í lögum um lax og silungsveiði og boðuðu til aðalfundar í Veiðifélagi Eystri Rangár. Ekki hefur verið haldinn aðalfundur í félaginu í þrjú ár. Þegar kom að stjórnarkjöri ákvað formaður stjórnar Drífa Hjartardóttir að bjóða sig ekki fram. Birkir Arnar Tómasson bóndi á Móeiðarhvoli bauð sig fram til formennsku og kom fram mótframboð frá Einari Lúðvíkssyni sem er framkvæmdastjóri veiðifélagsins og hefur verið um margra ára skeið.

Birkir hlaut átján atkvæði í kosningunni en Einar átta og einn skilaði auðu. Birkir var þar með rétt kjörin formaður. Öll stjórn félagsins er skipuð nýju fólki og að sama skapi varastjórn.

„Það hefur ekki verið haldinn aðalfundur í félaginu frá því árið 2016,“ sagði nýkjörinn formaður veiðifélagsins í samtali við Sporðaköst.

Hafið þið fengið skýringar á af hverju aðalfundir hafa ekki verið haldnir?

„Það hafa verið miklir erfiðleikar í rekstrinum. Ýmsir erfiðleikar og hafa komið fram skýringar á þeim nótum en það er í sjálfu sér engin ein skýring sem getur dekkað það að landeigendur fái ekki upplýsingar um eigur sínar. Landeigendur eiga þessa á og það skiptir ekki máli hvort gangurinn er góður eða slæmur. Það er engin afsökun sem afsakar að við fáum ekki upplýsingar.“

Að sama skapi staðfesti Birkir að ársreikningum hafi ekki verið skilað síðustu tvö ár. Samkvæmt heimildum Sporðakasta var heitt í kolunum á fundinum. Birkir sagðist geta staðfest að nokkurrar spennu hafi gætt á fundinum, en að fundurinn hafi verið góður þó að hann hafi verið alvarlegur.

Eru Þið landeigendur þá í hálfgerðu myrkri um stöðu félagsins?

„Já við höfum verið það undanfarin misseri og ár. Við höfum haft af því spurnir utan frá að staðan sé ekki góð og það á sama tíma og þetta reynist vera aflahæsta laxveiðiá landsins í sumar. Það veiðist vel og áin er falleg en rekstrarstaðan er alvarleg og við ákváðum bara boða til þessa fundar til að fá upplýsingar og svo þegar kom að stjórnarkjöri buðum við okkur fram. Við viljum taka til hendinni þarna og reyna að koma þessu á réttan kjöl,“ sagði Birkir.

Stjórnarfundir hafa ekki verið haldnir í félaginu undanfarin tvö ár. Birkir segir að hópurinn sem nú taki við sé samheldinn og hafi það að markmiði laga það sem laga þarf. Nýkjörin stjórn rabbaði saman eftir aðalfund og hafa einnig rætt saman í morgun.

Gímt við lax í Eystri Rangá sem er toppveiðiáin þessa …
Gímt við lax í Eystri Rangá sem er toppveiðiáin þessa dagana. ranga.is

Hvað tekur nú við hjá nýkjörinni stjórn?

„Okkur er það ljóst að verkefnið er stórt og því áríðandi að við förum í það sem einn maður. Fyrstu dagarnir og vikurnar fara í að ná utan um stöðuna og fara svo í greiða úr því sem hægt er, eftir bestu getu. En staðan virðist vera alvarleg. Það er ljóst að ný stjórn þarf að taka á rekstrinum af fullri hörku. Það verður gert þegar við höfum náð utan um heildarmyndina. Annað getur ekki gengið.“

Einn af þeim sem tók til máls á aðalfundinum var Davíð Oddsson sem var með umboð frá konu sinni Ástríði Thorarensen, en hún er landeigandi að Eystri Rangá. Birkir staðfesti að Davíð hefði tekið til máls á fundinum. „Hann tjáði sína skoðun og ég var honum sammála og hann var að lesa stöðuna rétt. Hann sagði það sem segja þurfti,“ sagði Birkir.

Einar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins sagðist ekkert hafa um málið að segja þegar leitað var eftir viðbrögðum hans.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert