Sporðaköst mæta nú á nýjan leik á mbl.is eftir stormasaman vetrardvala. Þetta er þriðja árið sem Sporðaköst standa veiðivaktina fyrir veiðifólk. Nú eru aðeins tveir dagar í að sjóbirtingstímabilið í Skaftafellssýslum hefjist og ljóst að margir hugsa sér gott til glóðarinnar eftir þennan langa vetur. Markmiðið nú sem endranær er fjölbreytt og áhugaverð umfjöllum um veiði af öllum toga.
Veiðihornið í Síðumúla er bakhjarl umfjöllunarinnar, eins og fyrri árin. Án þeirrar aðkomu væri ekki hægt að halda úti svo viðamikilli umfjöllun.
Fyrstu veiðisvæðin sem opna 1. apríl eru meðal annars Tungufljót, Tungulækur, Eldvatn, Ytri-Rangá, Leirá, Varmá og Leirvogsá ásamt Litlu-á í Kelduhverfi, svo einhverjar séu nefndar.
Þó svo að síðustu dagar hafi verið kaldir og vorið láti lítið fyrir sér fara leynir sér þó ekki að það er stutt í það. Þúsundir gæsa flugu inn á Suðurlandið um helgina og fuglalíf fer ört vaxandi dag frá degi.
Útlitið varðandi vatnsbúskap fyrir helstu árnar er gott. Víða er mikill snjór til fjalla og erfitt að ímynda sér annað þurrkasumar. Í fyrra vantaði vatn og víða fisk, þegar kom að laxveiðinni. Nú horfir það til betri vegar en þá gæti orðið skortur á veiðimönnum í þeim ám sem stóla á erlenda veiðimenn.
Mikil óvissa er fram undan á næstu vikum vegna heimsfaraldursins af völdum Covid-19. Enn sem komið er búast þó helstu sérfræðingar í þessum fræðum við því að faraldurinn gangi hér yfir á nokkrum vikum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |