Gunnlaugur Stefánsson fyrrverandi prestur í Heydölum í Breiðdal situr nú í sóttkví eftir að hafa komist heim úr draumaveiðinni í Argentínu eftir miklar hrakningar víða um heim. Hann féllst á að setja niður magnaða ferðasögu sína um breyttan heim sem nánast er ógerningur að ferðast í. Við gefum Gunnlaugi orðið.
Þetta hófst allt fyrir fimm árum, þegar ég ákvað að láta af prestsembætti í Heydölum 1. nóvember árið 2019, fara á eftirlaun 67 ára og safna mér í draumaferð i sjóbirtingsveiði í Rio Grande syðst í Argentínu í tilefni af starfslokum mínum. Allt gekk það eftir, ég lét af embætti 1. nóvember s.l. og veiðiferðin var undirbúin vandlega og lagt af stað í byrjun mars og heimkoma áætluð 22. mars.
Ég kannaði rækilega stöðuna í Argentínu varðandi corono veiruna og við brottför leit þetta vel út, engin hættusvæði þar syðra og langtum betra ástand en víðast annars staðar í heiminum og talið öruggt að ferðast þangað, svo ég lagði í hann.
Ég flaug með British Airways með millilendingu í London og allt gekk eins og í sögu. Ég dvaldi í Buenos Aires í tvo daga og mannlífið iðandi og fjölskrúðugt og gaf ekkert til kynna um heimsfaraldur veirunnar. Ég flaug síðan til Rio Grande, sem er þriggja og hálfs tíma flug og kom mér svo fyrir í glæsilegu veiðihúsi á stórum búgarði við ána Rio Grande. Þar er vel fyrir öllu séð og umvafinn frábæru fólki. Þangað voru þá mætt bandarísk hjón til að veiða líka. Von var á þremur veiðimönnum til viðbótar, sem voru á ferðalagi í Argentínu, en þau komust aldrei til okkar.
Fyrirhugað var að ég dveldi þarna í viku við veiðina. Allt gekk vel og engar alvarlegar fréttir af útbreiðslu veirunnar í Argentínu. En á fimmta veiðidegi fæ ég skilaboð frá British Airways um að þeir séu hættir að fljúga til Buenos Aires, aflýsa heimflugi mínu og benda mér á að ég geti bókað flug frá einhverjum ákvörðunarstað þeirra, en ekki frá Buenos Aires og ég verði sjálfur að koma mér þaðan á eigin kostnað. Ómöguleg var að ná sambandi við flugfélagið og vefsíðan þeirra gaf ekkert svigrúm til breytinga, aðeins kaupa nýja farseðla eða aflýsa flugi. Daginn eftir berast fréttir af því að argentínsk stjórnvöld hafi ákveðið að enginn útlendingur yfirgefi landið nema að hafa lokið 14 daga sóttkví í landinu. Í framhaldinu var sett á algjört útgöngubann í Argentínu og hörðum viðurlögum með háum sektum beitt á fólk sem það bryti.
Þá fékkst heimild til að lýsa veiðihúsið sérstaka sóttkví og ákveðið að ég yrði þar í sóttkví til 26. mars. Ég kaupi nýjan farseðil í samræmi við það frá Rio Grande til Buenos Aires og áfram daginn eftir með Latam Airways til London og áfram heim. Hið jákvæða var, að við gátum haldið áfram að veiða í sóttkvínni og heil vika myndi bætast við veiðina. Engum datt þá í hug hvað innan tíðar myndi gerast.
Þegar ég hafði dvalið í veiðihúsinu í viku og horfði fram á eina viku til viðbótar, þá fara að berast fréttir af niðurskurði flugferða í stórum stíl frá Buenos Aires út úr landinu. Þá eykst þrýstingur á stjórnvöld um að leyfa útlendingum að yfirgefa landið án þess að hafa lokið sóttkví að fullu og óformleg skilaboð berast um að séð verði í gegnum fingur með það. Þá brestur á innanlandsflugsbann í Argentínu, nema undir sérstökum aðstæðum. Þarna er kominn sunnudagur og húsráðendur í veiðihúsinu frétta af flugi frá Usuhuia til Buenos Aires daginn eftir, sem er bær í 250 km fjarlægð frá Rio Grande, ná að bóka okkur í flugið og fá sérstaka heimild til að keyra með okkur á flugvöllinn. Þá keypti ég enn nýjan farseðil með flugi á þriðjudegi og nú með Canadian Airways til Toronto, svo til London og heim til að flýta brottför að ráði íslenska konsúlsins í Argentínu. Bandarísku vinahjónin mín ætluðu líka að fara með þessu flugi til Toronto og svo áfram til New York. Það var afar sérstök ökuferð frá Rio Grande til Usuhuia. Mættum ekki einum einasta bíl á leiðinni, en vorum stöðvuð þrisvar af her og lögreglu þar sem vegabréf og ferðaheimildir voru grandskoðaðar. Allt gekk þetta vel, náðum fluginu og komumst klakklaust á hótel í Buenos Aires, sem er eins og draugaborg, engir bílar á ferðinni nema tómir strætisvagnar, leigubílar og lögreglan með blikkandi ljósum.
Við útidyr hótelsins voru vopnaðir lögreglumenn og engir máttu fara inn eða út nema með gilda pappíra. Þarna urðum við að halda til á herberginu. Opnað var fyrir herbergjaþjónustu í tvo tíma á morgnanna, hádeginu og kvöldin þar sem þú pantaðir matarskammtinn sem kom svo í plastdósum/hulstrum í brúnum poka sem skilinn var eftir utan við herbergisdyrnar. Kvöldið fyrir flugið fékk ég skilaboð frá kanadíska flugfélaginu sem bauð mig velkominn um borð kl. þrjú daginn eftir. Þegar ég vakna klukkan sex um morguninn og opna tölvuna, þá eru ný skilaboð frá flugfélaginu um að fluginu sé aflýst. Argentínsk ferðaskrifstofa var að hjálpa mér við að bóka flug í góðu samstarfi við íslenska konsúlinn í Buenos Aires og finna þá um morguninn flug með Ethiopian Airways klukkan hálf tíu um kvöldið til Addis Ababa og þaðan til Frankfurt, flugið sé á áætlun og þeir hafi verið að fljúga út frá Buenos Aires síðustu daga. Nú var vonin sett á þetta flug með staðfesta bókun, og ég held út á flugvöll í leigubíl. Það var löng ferð á fáförnum veginum af því að fara þurfti í gegnum tvær varðstöðvar þar sem vegabréf og farseðlar var grandskoðað og pappírar bílstjórans líka. Þetta tók langan tíma. Ég kom á flugvöllinn sjö tímum fyrir brottför og þá virtist flugstöðvarbyggingin mannlaus, en hópur af farþegum utan við dyrnar sem vopnaðir verðir gættu og hleyptu engum inn. Svo fjölgar stöðugt í farþegahópnum sem allir eiga bókað flug með Ethiopian og langflestir eru Evrópubúar í sömu stöðu og ég og flestir með margar árangurslausar brottfarir í farteskinu. Við sjáum á netinu að flugvélin var komin til Sao Palo samkvæmt áætlun, en þaðan átti að fljúga til Buenos Aires. En flugvélin sat föst í Sao Palo, kom aldrei til Buenos Aires, við biðum fram yfir brottfarartíma, en gáfumst þá upp og ég hélt til baka á hótelið, en þá var þrautinni þyngri að finna far niður í borg sem mér tókst fyrir einskæra tilviljun. Þarna fyrir utan flugstöðvarbygginguna hitti ég starfskonu Aerolines Argentinas á leiðinni heim úr vinnunni sem segir mér að flugfélagið sitt sé hætt að flytja farþega út úr landinu og engar flugferðir annarra flugfélaga séu á dagskrá næstu daga, jafnvel vikur.
Um morgunninn segja bandarísku hjónin mér frá því að ameríska sendiráðið hefði sett upp neyðarflug fyrir þegna sína í Buenos Aires til Miami morguninn eftir klukkan hálf tíu, þ.e. á föstudagsmorgni með litlu amerísku flugfélagi sem heitir Eastern. Mér var ljóst að þetta yrði síðasta farþegaflug út úr landinu marga næstu daga.
Hjónin hafa samband við ameríska sendiráðið og fá heimild fyrir mig til að bóka sæti í vélinni og ég fæ sérstakan aðgangskóða á bókunarsíðuna, kaupi miða og fæ staðfestingu senda um hæl. Enn er farið út á flugvöll næsta morgun klukkan fjögur og erum komin tímanlega í röðina að innritunarborðinu. Um síðir hefst innritun og þá kemur í ljós að allt er gert handvirkt, innritunarspjöld handrituð og töskumiðar líka og farþegalistinn á faxblöðum og tók óratíma að afgreiða hvern farþega. En áfram sligast röðin og loksins komið að mér, afhendi vegabréfið, bókunarstaðfestingu og ESTA skjal sem er heimild til að koma til Bandaríkjanna. En þá finnst nafnið mitt ekki á farþegalistanum og mér tilkynnt að ég komist ekki með nema flugfélagið í Miami bæti mér á listann og beðinn að víkja burt hið snarasta. Í öngum mínum hringi ég í Ásgeir Gunnar, bróður minn, á Íslandi, sem er flugstjóri hjá Icelandair og þekkir vel til í flugheiminum og hafði fylgst náið með mér og verið mér til halds og trausts ásamt mörgum. Honum tókst að finna símanúmer hjá Eastern airlines í Miami, náði sambandi og skýrði út aðstæður mínar og bað þá að grípa inn í og bæta mér á farþegalistann. Ég fæ svo símtal frá fulltrúa flugfélagsins í Miami sem biður mig um að afhenda símann einhverjum sem væri að innrita í flugið. Ég kemst að innritunarborðinu og segi að Eastern airlines vilji tala við hann, tekur símann og að loknu símatalinu segist hann muni innrita mig seinna. Ég yrði að bíða. Tíu mínútum síðar er aftur hringt í mig frá flugfélaginu og þá spurður hvort búið væri að innrita mig. Ég sagði nei. Hún bað mig þá að afhenda símann aftur einhverjum sem væri að innrita í flugið. Eftir það símtal sagði maðurinn: "Ég innrita þig næstan og skrifa nafnið þitt á farþegalistann". Og það gekk eftir.
Það tók rúmar sex klukkustundir að innrita fólkið í flugið og fór flugvélin í loftið eftir fimm tíma seinkun og lenti eftir níu stunda flug í Miami. Þegar ég hafði komið mér fyrir í merktu sæti mínu kemur Bandaríkjamaður með sama sætisnúmer, og ég vissi að hvert sæti var skipað í vélinni. Enn fór um mig kvíðahrollur. Er vélin yfirbókuð? En sem betur fer var sætið laust fyrir framan mig þegar allir voru komnir um borð og settist Kaninn þar. Aldrei hef ég reynt annað eins klapp og fagnaðarlæti um borð í flugvél þegar vélin tók sig á loft í Buenos Aires og þegar lent var í Miami. Mikið var mér létt, þó enn gæti tálmi verið í vegi. Ég þurfti að komast inn í Bandaríkin í gegnum vegabréfaeftirlitið til að ná flugi til Boston daginn eftir og áfram með Icelandair til Íslands um kvöldið. Búið væri að loka á Evrópufólk inn í Bandaríkin. Ég hafði sótt um ESTA með aðstoð Ásgeirs, bróður míns, fengið samþykkta á meðan ég var í Argentínu, en var svo afturkölluð á meðan ég var að bíða eftir fluginu í flugstöðinni í Buenos Aires. Okkur tókst að endurnýja hana í flýti og var samþykkt, en svo afturkölluð á meðan fluginu stóð til Miami sem ég vissi ekki fyrr en síðar. En móttökurnar í vegbréfaeftirlitinu á flugvellinum í Miami voru framar öllum vonum. Landamæraverðir tóku vel á móti mér, spurðu um ferðir mínar og frekari ferðaplön, ræddu um veiruna og skaðsemi hennar og báðu mig að fara varlega. Þeir sáu að ég hafði ekki verið í Evrópu s.l. 14 daga og buðu mig velkominn inn í landið. Þá var mér létt, fór á hótel og svaf vært. Upp úr hádegi daginn eftir flaug ég frá Miami til Boston. Þar var yfir 90% allra fluga aflýst og flugið mitt eins og hvít ljóstýrulína á meðal allra rauðu "cancellations". Það var tæpast að nokkrir farþegar sæjust í flugstöðvarbyggingunni og ég var eini farþeginn á öllu öryggissvæðinu þegar ég fór þar í gegn. Það var sérstök tilfinning. Um 40 farþegar voru í 400 manna flugvél á leiðinni til Boston. Það var stór stund fyrir mig þegar ég sá loks Icelandair merkið fyrir ofan innritunarborðið á flugvellinum í Boston, stund sem ég hafði þráð lengi og oft hugsað um á ferðinni, eins og langþráðan draum. Ég stöðvaði, kastaði mæðinni, um mig fór einhver einstök tilfinning, gekk svo að borðinu, var tekið innilega af starfsfólkinu og hélt svo áfram för afar sæll áleiðis heim til Íslands.
Mikið var gott að koma heim og þó að biði mín 14 daga sóttkví sem ég nýt af þakklátu æðruleysi. Heimþráin er æði sérstök. Þegar hún sækir á í mætti eins og ég reyndi svo heitt, þá skipta peningar engu máli, aðeins að komast heim. Vera heima hjá fólkinu mínu sem hafði miklar áhyggjur af mér. Ég var í raun aldrei einn á ferð. Í fjarlægð stóðu þétt með mér fjölskylda mín, Sjöfn mín, Stefán Már, sonur, og fjölskylda hans, að ógleymdum bræðrum mínum Ásgeiri Gunnari og Guðmundi Árna, sem er í Indlandi, og fjölskyldum þeirra. Í svona aðstæðum verður heimurinn rosa stór, en líka agnarsmár. Þá var ég í stöðugu sambandi við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins sem vinnur frábært starf og ekki síst Þórður Óskarsson, sendiherra í Argentínu með aðsetri í Reykjavík. Hann reyndist mér vel og alltaf í sambandi, nótt sem nýtan dag. Svo Daníel, konsúll Íslands í Buenos Aires, mikil styrkur var að eiga hann að á vettvangi, alltaf til þjónustu reiðubúinn, úrræðagóður verkmaður. Í svona aðstæðum skilur maður betur hve utanríkisþjónustan gildir drjúgt fyrir Íslendinga á erlendri grundu, alveg bráðnauðsynleg, vel tengd og skipulögð og vinnur feyki gott starf. Þá naut ég alúðar og umhyggju gestgjafa minna í Rio Grande, og ég sagði þegar ég kvaddi þau, að þangað skyldi ég koma aftur og þá með Sjöfn minni, þó ekki væri til annars en að þakka og þakka innilega. Þá reyndist mér drjúgur styrkur á ferðinni að njóta vináttu hinna bandarísku sæmdarhjónahjóna, Pat og Ken, og vorum hvert öðru mikill styrkur og skjól. Það var mér mikils virði.
Ég hef verið spurður hvort tryggingarnar muni bæta mér umtalsverð fjárútlát. VÍS tryggingafélagið mitt um langa tíð hefur alltaf reynst mér vel, ætlar að skoða málið jákvætt, en það er alveg ljóst að þessar aðstæður eru fordæmalausar og erfitt að sjá þær fyrir með almennum skilmálum. Við sjáum hvað setur um það. En samskiptin við stóru útlensku flugfélögin eru kapítuli útaf fyrir sig. Þar er allt lokað og læst, engin netföng í boði til sambands og ómögulegt að ná sambandi í síma. En þau selja farseðla á uppsprengdum verðum með auðveldu aðgengi og jafnvel þó liggi fyrir innan flugfélagsins að flugið fari aldrei og þau endurgreiða ekki sjálfkrafa fargjöld til fólks fyrir flug sem aldrei var flogið. Það er eins og þessir stóru flugrisar séu að reyna að græða á neyð fólksins. Þetta á ekki við Icelandair sem reyndist mér afar traust með topp þjónustu. Þessi ferð gleymist mér aldrei. Ég er reynslunni ríkari, ekki síst fyrir að kynnast mörgum í erfiðum aðstæðum og allir með útrétta hjálparhönd.
En veiðin var alveg frábær. Aðstæður voru að vísu krefjandi með miklu og lituðu vatni, sérstaklega fyrstu dagana, og því veitt með þungum sökktaumum, en í eðlilegu vatni er venjulega veitt með flotlínum og litlum flugum. En þetta kom ekki að sök og landaði ég um tuttugu sjóbirtingum, mörgum um og yfir 10 pund og þar á meðal tveimur tuttugu punda risum. Þessi veiði er engu lík og allt sem henni fylgir, aðbúnaður, þjónusta, náttúra, umhverfi og allt þetta fjölskrúðuga fugla- og dýralíf. Þetta er eins og íslenskt sumar hvað hitastig varðar og gróðurfar ekki ólíkt á margan hátt. Nema þarna er mjög vindasamt sem maður venst strax og hjálpar til við köstin sem þurfa að vera löng, ekki síst þegar stutt er hægt að vaða.
Lýkur hér frásögn Gunnlaugs og Sporðaköst bjóða hann velkominn heim.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |