Veiðin á opnunardeginum í Leirá er með ólíkindum. Nú hafa veiðst tuttugu birtingar það sem af er þessum degi. Það er kannski ekki endilega fjöldinn einn sem fær menn til að reka upp stór augu heldur líka stærð fiskanna. Sá stærsti í dag er 82 sentímetrar og hefur það verið sjaldséð stærð í Leirá.
„Þetta eru allt flottir fiskar og við kunnum enga aðra skýringu en að við höfum sett á sleppi skyldu og þetta er þriðja árið sem hún er við líði. Við erum búin að vera með ána á leigu í þrjú ár og fyrsta árið okkar var ekkert af svona stórum fiski. Þetta er einkar gleðilegt,“ sagði Harpa Hlín Þórðardóttir í samtali við Sporðaköst síðdegis.
Það glömruðu í henni tennurnar og hún viðurkenndi að það væri virkilega kalt. Ekki einasta frýs í lykkjum heldur frjósa vöðlurnar og „maður labbar eins og vélmenni,“ sagði hún.
Fjórtán fiskar veiddust á fyrri vaktinni og þau hjónin, hún og Stefán Sigurðsson voru búin að fá sex til viðbótar. Flestir fiskarnir hafa tekið púpur í andstreymisveiði en einnig hefur hin klassíska fluga Black Ghost gefið vel.
Þetta er mangaður viðsnúningur á Leirá því eins og fyrr segir var birtingurinn í frekar smár og þriggja punda fiskar algengir. Það er fyrirtæki þeirra hjóna Iceland Outfitters sem er með Leirá á leigu.
Þar sem er skóladagur þá voru börnin með og stunduðu fjarnám í veiðihúsinu.
Veiðideginum í Leirá lauk með samtals 34 fiskum, sem er fáheyrð tala í Leirá og þó víðar væri leitað. Fiskarnir mældust á bilinu 45 til 82 sentímetrar og margir voru stórir, sagði Harpa hlín í samtali við Sporðaköst í lok dags og frosin inn að beini. Eins og Harpa benti á voru kjöraðstæður. Áin að ganga niður og þau hjónin þekkja bestu blettina.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |