Harðduglegir veiðimenn opnuðu Eyjafjarðará og Brunná fyrir norðan í gær. Veiðin var með ágætum í báðum ám. Þannig lönduðu veiðimenn í Eyjafjarðará 21 fiski. Var það mest sjóbirtingur og staðbundinn urriði en einnig veiddust nokkrar bleikjur. Ekki eru margir dagar síðan Eyjafjarðará var ísilögð og mældist vatnshiti aðeins ein gráða þegar menn voru við veiðar í gær.
Töluvert var um væna sjóbirtinga og sá stærsti var hvorki meira né minna en 88 sentímetrar sem er sannkölluð sleggja. Sá fiskur tók hálftommu Sunray á Merkigilsbreiðu.
Samkvæmt rafrænu veiðibókinni fyrir Eyjafjarðará, sem hýst er á veiditorg.is, gaf Merkigilsbreiða flesta fiska.
Brunná var einnig opnuð í gær og var veðrið þar vægast sagt vont; mikið hvassviðri og kuldi. En Kristinn Þeyr og félagar hörkuðu af sér og uppskáru sextán fiska; tólf birtinga og fjórar bleikjur. Vænir fiskar voru innan um og gáfu hefðbundnar púpur í bland við Zonker flesta fiska.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |