Mokveiði hefur verið í Laxá í Kjós á sjóbirtingssvæðinu. Þeir Hrafn Hauksson og Skúli Kristinsson leiðsögumenn hjá Hreggnasa ehf., sem er með ána á leigu, voru við veiðar síðustu daga, ásamt félögum. Þeir félagar lönduðu yfir áttatíu birtingum á tveimur dögum. Samtals eru komnir ríflega 120 birtingar á land.
Hrafn H. Hauksson sagði í samtali við Sporðaköst að þeir hefðu orðið varir við fiska í nánast öllum stöðum frá Kotahyl og niður undir veiðihús. „Okkur kom í sjálfu sér ekki á óvart að það væri mikið um fisk. Við sáum það bara í fyrra hvað gekk mikið af birtingi í Kjósina. Svo vitum við að það eru mjög stórir innan um. Stærsti birtingurinn síðasta sumar var 99 sentímetrar.“
Þeir félagar voru þó ekki að setja í þessa stærstu en megnið af fiskinum var í kringum 70 sentímetra. Innan um var fallegur geldfiskur og Hrafn segist sérstaklega hafa tekið eftir því hvað lítið var um slápa.
Hvað tók hann helst hjá ykkur?
„Bara það sem var kastað. Þetta var ekki mjög teknísk veiði. Við fengum á púpur, straumflugur og bara hvað sem er.“
Eins og mörg fyrri árin er mest af fiski í Káranesfljótinu en Hrafn sagði að það hefði bókstaflega kraumað.
Um aldamótin var Kjósin afar þekkt sem öflug sjóbirtingsá en á þeim árum var mikið drepið af stóra hrygningarfiskinum og því kom niðursveifla. Þar hefur orðið mikil breyting á síðari ár.
Fáir þekkja Kjósina jafn vel og Haraldur Eiríksson, hann segir sjóbirtinginn í Kjósinni vera afar merkilegan. „Á næstu vikum fara þeir til sjávar og þeir fyrstu mæta aftur um Jónsmessuna. Þessir fiskar eru töluvert lengur í ferskvatni en frændur þeirra í Skaftafellssýslunum. Þeir eru ekki í sjó nema um tvo mánuði. Þess vegna verða þeir aldrei almennilega bjartir á roðið,“ sagði Haraldur í samtali við Sporðaköst. Hann segir að þeir fái oft lúsuga sjóbirtinga á sumrin sem líti út fyrir að hafa verið í ánni í nokkrar vikur.
Sleppiskylda er á öllum sjóbirtingi yfir sextíu sentímetra. Þessir fiskar hrygna árlega og segir Haraldur að 15 til 18 punda sjóbirtingur á þessum slóðum sé 15 til 16 ára gamall. „Auðvitað er þetta mjög dýrmætur fiskur,“ bætir hann við.
Geldfiskurinn er að mæta í Kjósina í byrjun ágúst og þann fisk megi veiða. Rétt er að ítreka að veiðileyfi í Kjósina á þessum tíma eru ekki á almennum markaði. Hreggnasi ráðstafar þeim til vildarviðskiptavina. Sjóbirtingssvæðið nær frá Reynivallakirkju og niður úr. Ganga þarf með allri ánni því vegir eru lokaðir vegna bleytu.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |