Þó svo að rysjótt veður hafi sett mark sitt á vorveiðina í sjóbirtingsánum eiga þær það allar sameiginlegt að veiðin hefur verið góð þegar menn hafa komist vegna veðurs. Þannig eru komnir um 170 birtingar í bók í Tungulæk og þar af tveir fiskar yfir 90 sentímetrar.
Sá veiðistaður sem gefur langbestu veiðina er Holan sem er neðst í læknum, rétt áður en hann sameinast Skaftá. Holan ein og sér hefur gefið tæplega níutíu fiska.
Þessi mynd sem fylgir fréttinni er ótrúlega skemmtilegt augnablik sem Theodór K. Erlingsson fangaði á laugardaginn. Þessi mynd er einmitt tekin þegar viðureign við boltasjóbirting stóð yfir og þetta er veiðistaðurinn Holan. Hvítur og svartur Nobbler hafa gefið besta veiði í Tungulæk í vor eða ríflega fimmtíu fiska.
Eldvatnið er önnur afskaplega skemmtileg sjóbirtingsá og þar sést glöggt hversu sleppingar geta borið góðan árangur. Ríflega fjörutíu birtingar hafa veiðst til þessa. Hlutfall stórfiska hefur farið vaxandi síðustu ár og það er fyrst og fremst að þakka sleppingum, að mati kunnugra. Á annan tug fiska sem eru áttatíu sentímetrar og yfir hafa veiðst í vor. Besti veiðistaðurinn til þessa er Villinn.
Við höfum áður greint frá góðri veiði í Leirá, Tungufljóti og Húseyjarkvísl og þá hafa bæði Litlaá í Kelduhverfi og Laxá í Kjós gefið hörku vorveiði.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |