Hann Brynjar Vignir Sigurjónsson veiddi sinn fyrsta fisk í Tungufljóti í dag. Lítið hafði gengið en á veiðistaðnum Flögubakka festi Brynjar skyndilega, eða það hélt hann. Eftir smá tog fór festan af stað. Þegar upp var staðið landaði hann 100,5 sentímetra sjóbirtingi.
Þetta er me fiskur á Íslandi í vor og þótt víðar væri leitað. Brynjar sem er sautján ára sagði: „Ertu að meina þetta?“ Þegar honum var bent á af Sporðaköstum að þetta væri eins stór sjóbirtingur og þeir stærstu sem veiðast bara yfir höfuð. Alger metfiskur.
„Já, ég hélt að það væri fast. Bara pikkfast. En svo fór hann af stað og hann var þungur. Var ekkert mikið að sprikla og stökkva en togaði bara og togaði. Ég var ekki nema tíu mínútur með fiskinn og þá fyrst sáum við hvað hann var stór. Þetta var veisla,“ sagði Brynjar afskaplega kátur í samtali við Sporðaköst.
„Þetta var í morgun sennilega um klukkan tíu. Ég var bara stutt út í og kastið var ekki langt og hann tók grænan Nobbler eða einhverja útgáfu af honum. Sennilega er þetta Olive Nobbler. Þetta var geggjað.“
Brynjar hefur veitt frá því að hann var smá gutti og er heltekinn af veiðidellu. Það er alveg ljóst hver á montréttinn í þessu holli í kvöld.
Veiðistaðurinn var nefndur Fagribakki í fréttinni en það hefur verið leiðrétt og staðurinn er Flögubakki. Það er ekki að undra að veiðimaður sem landar 100,5 sentímetra fiski telji Flögubakka fagrann.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |