Urriðaveiðin í Þingvallavatni byrjar af krafti. Á ION svæðinu hafa veiðimenn landað tugum fiska, en minna er um þessa allra stærstu. Það á þó vafalítið eftir að breytast með hækkandi hitastigi. Veiði feðginin Árni Baldursson og Valgerður Árnadóttir voru við veiðar á svæðinu undanfarna daga og sögðu þau að þar hefði verið mikið stuð í veiðinni.
Cezary Fijalkowski er einn af þeim sem sækir Þingvallavatnið af krafti og nýtir sér þá þann aðgang sem Veiðikortið býður upp á. Hann sagði í samtali við Sporðaköst að hann væri búinn að landa tólf urriðum. Þeir eru allt upp í 89 sentímetrar.
„Það er mikið af fiski,“ sagði Cezary og hann er aftur á leið á Þingvelli í vikunni. „Ég var að fá þetta mest á Parrot flugur og Pike Terror flies,“ Hann segir það sína reynslu að það borgi sig að nota stórar flugur á þessum tíma. „Stórar flugur, stórir fiskar,“ hlær hann.
Hann notar mikið flugur sem hnýttar eru með UV efni þannig að þær lýsa aðeins í myrkri. Þetta hefur reynst honum afar öflugt tæki í leit að stóra urriðanum.
Flugurnar eru hnýttar að forskrift Cezary og hann er að selja þær í settum í Veiðihorninu.
Meðalfellsvatn opnaði 19. apríl og Sporðaköst hafa frétt af nokkrum sem hafa lagt leið sína að vatninu. Sumir hafa hitt á hann en fyrst og fremst hafa menn verið að veiða smáa urriða. Pund og rétt rúmlega það.
Kleifarvatn er líka opið en er enn að hluta undir ís og þar er erfitt að athafna sig.
Fyrir marga veiðimenn á höfuðborgarsvæðinu er svo stór dagur á morgun þegar Elliðavatn opnar. Án efa eru margir tilbúnir til að leggja leið sína þangað í fyrramálið og fagna sumrinu sem samkvæmt dagatalinu á að hefjast á morgun.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |