Kárastaðir í Þingvallavatni er eitt af þessum skemmtilegu svæðum á vorin. Benedikt Andrason var með stórfjölskylduna við veiðar þar í gær og settu þau í nokkra fiska og lönduðu einum.
„Þetta var fyrsti dagurinn sem ég upplifði við Þingvallavatn í ár, þar sem mér fannst komið sumar,“ sagði Benedikt í samtali við Sporðaköst seint í gærkvöldi eftir að veiðitíma var lokið.
„Þetta byrjaði með fjöri hjá okkur og við vorum að setja í fiska og missa. Fyrsti fiskurinn sem kom á land var 75 sentimetra vel haldinn urriði. Ég fékk hann í veiðistað sem heitir Rauðkusunes. Hann tók hefðbundinn Black Ghost á sökkenda. Ég hef svo mikla trú á Black Ghost að ég vil nota hana sem mest. Auðvitað erum við með nokkur afbrigði af þessari flugu en hún er bara svo sterk í urriða.“
Vatnið var spegilslétt í gærkvöldi og kannski ekki besta veður til veiða en fjölskyldan naut blíðunnar. Þegar nokkuð var liðið á dag varð Benedikt uppiskroppa með taumefni. „Ég er að nota þarna tuttugu punda plús taum. Ég var hins vegar búinn með það og setti undir tólf punda taum hjá mömmu eftir að hún hafði slitið í botni. Fljótlega tók hjá henni svaka fiskur og hann sleit þennan taum eins og tvinna. Þetta var mér að kenna,“ hlær Benedikt.
Hann segir botninn erfiðan þarna eins og víðar í Þingvallavatni ef þú ert að veiða djúpt. „Það er ástæðan fyrir því að ég nota sterka tauma. Vil frekar rétta aðeins út króknum og lagfæra hann svo heldur en að vera skilja þessar flugur eftir á botninum.“
Hann var búinn að festa Black Ghostinn tvisvar og rétta upp krókinn, áður en fyrsti fiskurinn tók. „Ég var búinn að laga krókinn tvisvar með töng og í annað skiptið beygði ég niður agnhaldið og mundi eftir því þegar ég var að slást við hann. Úff, ég hugsaði bara með mér, þetta verður spennandi.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |