Veiði er að glæðast fyrir norðan í þeim ám sem bjóða upp á vorveiði, bæði í sjóbirtingi og bleikju. Eyjafjarðará er búinn að vera hörkugóð og Litlaá í Kelduhverfi er alltaf mögnuð. Hins vegar hafa aðstæður verið erfiðar fyrir ár eins og Brunná, Mýrarkvísl og Lónsá svo einhverjar séu nefndar.
Matthías Þór Hákonarson leigutaki og leiðsögumaður segir að þetta sé allt hægt og bítandi að komast í rétt horf, eftir erfiðan og mikinn vetur. Hann var með mönnum neðarlega í Brunná í gær og gerðu þeir ágæta veiði þrátt fyrir frekar hryssingslegar aðstæður.
Þar sem Brunná og Sandá mætast voru nokkuð mikil litaskil að sögn Matthíasar, þar voru þeir einmitt að setja í hann og nokkru neðar. „Það lægði þegar leið á daginn og hlýnaði og þá fórum við að sjá hann meira og veiðin glæddist. Við lönduðum tíu á seinni vaktinni.“
Matti, eins og hann er kallaður hafði heyrt í mönnum sem voru í Mýrarkvíslinni í gærkvöldi og þeir voru komnir með þrjá fiska. Þá hafði hann einnig heyrt í veiðimanni sem var að veiða Presthvamm og var búinn að ná nokkrum fiskum. „Þetta er allt að detta í gang í rólegheitum hér fyrir norðan.“
Kvikmyndin „Síðasta veiðiferðin,“ var tekin upp í Mýrarkvísl síðastliðið sumar. Sporðaköst hafa dæmt þessa mynd þá fyndnustu sem gerð hefur verið. Þá er ekki verið að einblína á Ísland. Okkur lék forvitni á að vita hvort Matti hefði fengið mikil viðbrögð, verandi leigutaki.
„Já, ég er búin að fá mikil og góð viðbrögð. Fólk hefur verið að stoppa mig á götu úti og tala um myndina. En mér fannst alveg magnað að fylgjast með Steina (Þorsteini Bachmann). Sem er þetta mikla náttúrubarn að þurfa að leika þennan leiðinlega gæja, hann Val. Hann var að engjast að þurfa að leika þessa týpu,“ sagði Matthías í samtali við Sporðaköst.
Þeir sem ekki fengu tækifæri til að sjá Síðustu veiðiferðina fyrir samkomubann og lokun kvikmyndahúsa ættu að láta það verða sitt fyrsta verk að skella sér í bíó.
Þeir Matti og félagar enduðu með sextán fiska þegar dagur var að kveldi kominn. Þeir voru komnir með fimm um kvöldmat en þegar veðrið róaðist fóru hlutirnir að gerast og þeir enduðu með sextán fiska. „Við fundum dauðan sjóbirting á leið okkar um ána. Hann var engin smásmíði eða 91 sentímetri. Það voru engin sár á honum eða neitt sem benti til þess að hann hefði tekið agn. Við dæmdum hann ellidauðan og það er frábært að þessir fiskar fái að deyja úr elli,“ sagði Matti að lokum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |