Félagið Fish Partner sem leigir veiðisvæði og selur veiðileyfi vítt og breitt, hefur ráðið fimm eftirlitsmenn vegna stóraukins veiðiþjófnaðar á svæðum félagsins. Veiðiverðirnir eru með leyfi frá Fiskistofu og geta því gert veiðarfæri upptæk, að því er Kristján Páll Rafnsson hjá Fish Partner segir.
„Við höfum ákveðið að taka hart á þessu vandamáli. Það er ekkert leiðinlegra þegar að menn eru búnir að kaupa leyfi að mæta veiðiþjófum á svæðinu sem ýmist veifa Veiðikortinu eða spila sig heimska og þykjast ekkert vita. Við höfum ráðið fimm veiðiverði sem munu vakta öll svæðin okkar á Þingvöllum og í Úlfljótsvatni. Það verður engin miskunn því veiðibúnaður verður skilyrðislaust gerður upptækur og öll mál kærð til lögreglu,“ sagði Kristján Páll í samtali við Sporðaköst.
Upplýsingaskilti hafa verið við svæðin og er Fish Partner nú að fjölga þeim og endurnýja, þar sem eitthvað af skiltunum hefur horfið.
Fólk á vegum Fish Partner hefur komið að veiðimönnum án leyfis á Kárastöðum, Villingavatni og Efri Brú, þar sem brotinn hefði verið upp lás til að komast á svæðið.
Rétt er að ítreka að Veiðikortið veitir rétt til að veiða í landi þjóðgarðsins en ekki á þeim svæðum sem eru í útleigu víða um vatn.
„Við vonum svo sannarlega að veiðiþjófar sjái að sér og einfaldlega kaupi sér leyfi svo ekki þurfi að koma til þessara aðgerða,“ sagði Kristján Páll að lokum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |