Þessi líka glæsilegi sjóbirtingur veiddist í veiðistaðnum Gullkistu í Eldvatni í gær. Það sem vekur sérstaka athygli er að hann er með fullkomið sjóbirtingslag á búk og sporð en hausinn er miklu líkari laxi.
Magnús Ásmundsson veiddi þennan fisk og mældist hann 87 sentímetra langur. „Hann tók eins og lax og hegðaði sér miklu frekar eins og lax og ég hélt ég væri með lax. En þetta er örugglega birtingur þó að hausinn á honum sé mjög stór og laxalegur,“ sagði Magnús Ásmundsson í samtali við Sporðaköst. Hann var nýbúinn að landa 83 sentímetra birtingi á Sandeyrinni þannig að hann fékk samanburðinn alveg í æð.
Þekkt er að laxar og sjóbirtingar geta æxlast en þá er alltaf um að ræða ókynþroska fisk að sögn Guðna Guðbergssonar sviðstjóra hjá Hafrannsóknastofnun. Sporðaköst sendu honum myndina til skoðunar. Hann svaraði um hæl:
„Varðandi fiskinn á myndinni er klárt að afturhlutinn er klár sjóbirtingur. Fremri hlutinn er laxalegur,“ sagði Guðni. Hann vildi ekki kveða upp dóm í málinu og benti á að hreistursýni væri besta leiðin. Ekki var tekið slíkt sýni af þessum fiski en ástæða er til að hvetja menn til að gera það komi upp grunur um laxbirting, eins og þessir blendingar eru kallaðir.
„Það eru til blendingar laxa og sjóbirtings. Getur verið allt að 6% samkvæmt erlendum rannsóknum. Við seiðamælingar t.d. í Geirlandsá þar sem er bæði lax og sjóbirtingur, koma seiði sem eru klárir sjóbirtingar og annar hópur sem er klár lax. Þriðji hópurinn sem er reyndar lítill hefur ekki skýr tegundareinkenni og því mögulega um blendinga að ræða,“ sagði Guðni Guðbergsson.
Magnús veiðimaður var í skýjunum með þessa veiði. „Þessi 83ja sentímetra var minn stærsti fiskur og svo kom þessi í Gullkistunni og ég var varla búinn að ná úr mér hrollinum,“ sagði kátur veiðimaður á heimleið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |