Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar á Vesturlandi telja góðar vísbendingar um góðar smálaxagöngur í sumar. Þeir Sigurður Már Einarsson og Jóhannes Guðbrandsson fiskifræðingar settust í spádómssætin, eins og þeir kalla það, og horfðu á þau gögn og vísbendingar sem fyrir liggja um komandi laxveiðisumar.
„Miðað við yfirborðshita sjávar sumarið 2019 og þau tengsl sem hafa komið fram við laxgengd eru góðar vísbendingar um að von geti verið á góðum smálaxagöngum í ár á sunnan- og vestanverðu landinu á komandi sumri en stangveiðar á laxi í þessum landshluta eru yfirleitt um 40% af heildarveiði náttúrulegra laxastofna á landinu,“ segir í frétt sem birtist á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar.
Eins og gefur að skilja benda þeir félagar á að margar breytur kunni að hafa áhrif. Í fréttinni segir einnig: „Hér er eingöngu unnið með tengsl sjávarhita við laxveiði ári síðar en mjög áhugavert væri að gera spálíkan þar sem fleiri breytur væru notaðar sem tengjast seiðaframleiðslu ánna og frumframleiðni sjávar. Loftslagsbreytingar eru ekki einungis að hafa áhrif á hitastig sjávar en breytingar á seltu, sýrustigi og hafstraumum geta einnig haft mikil áhrif á lífríkið. Erfitt getur verið að spá fyrir um áhrif umhverfisþátta þegar gildi sem ekki hafa sést áður koma fram. Hér er eingöngu unnið með gögn sem tengjast veiði á Vesturlandi en mjög áhugavert væri einnig að hefja rannsóknir á slíku sambandi í öðrum landshlutum, sérstaklega Norður-og Austurlandi.“
Fyrir veiðimenn er það setningin „góðar vísbendingar um að von geti verið á góðum smálaxagöngum í ár á sunnan- og vestanverðu landinu...“, sem skiptir öllu máli. Svo er bara að krossa fingur og vona það besta. Það stefnir í nóg af vatni og jafnvel fiski. Nú gæti farið svo að vantaði bara veiðimenn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |