Fyrstu laxar sumarsins sáust í Urriðafossi í Þjórsá í gærkvöldi. Þar var á ferð Stefán Sigurðsson frá Iceland Outfitters sem er með svæðið á leigu. Hann var að gera klárt fyrir opnun. „Við sáum tvo laxa stökkva í Huldu,“ skrifaði Stefán á Facebook-síðu sína í gærkvöldi.
Þetta er hefðbundinn tími þegar fyrstu laxarnir eru að mæta í Þjórsá. Veiði þar hefst 1. júní og er ljóst að opnunin getur orðið spennandi. Veiðistaðurinn Hulda er einn besti veiðistaðurinn á Urriðafosssvæðinu ásamt Lækjarlátrum.
Fallegt vatn er í Þjórsá núna til veiða. Jökulliturinn er minni en oft áður, en auðvitað getur það breyst fljótlega og sjaldan á vísan að róa þegar kemur að hinu mikla vatnsfalli Þjórsá.
Fjórar stangir eru á svæðinu og kvóti á hverja dagsstöng eru fimm laxar.
Þjórsá hefur verið með einhverja bestu veiði á dagsstöng á Íslandi frá því veiði hófst þar á vegum Iceland Outfitters sumarið 2017.
Vísbendingar sem fiskifræðingar hafa undir höndum benda til spennandi sumars í það minnsta á Suður- og Vesturlandi. Sterkir seiðaáragangar gengu út í fyrra og í hlýrri sjó en oft áður. Grásleppan er í hörkuformi og það þykir líka góð vísbending. Þrátt fyrir þessi jákvæðu teikn eru margar óþekktar stærðir í þessari jöfnu.
Veiðivísir á visir.is greinir frá því nú í morgunsárið að Bubbi Morthens, sem býr stutt frá Laxá í Kjós, hafði staðfest að laxinn sé kominn í Kjósina. Hann segir í skilaboðum til blaðamanns að hann hafi séð tvo laxa á hefðbundnum stað fyrir fimm dögum.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |