Útlitið í nokkrum af helstu laxveiðiánum

Sigurður Veigar með 101 sentímetra fisk sem hann veiddi í …
Sigurður Veigar með 101 sentímetra fisk sem hann veiddi í Grímsá í september 2019. Tveir slíkir veiddust þar í fyrra eftir langa bið. Nú eru góðar líkur á að smálaxinn verði öflugur. Ljósmynd/GKH

Mjög athyglisverðar upplýsingar koma fram í vöktunarskýrslum Hafrannsóknastofnunar um einstaka ár. Þannig er víða staðfest á Vesturlandi góð seiðastaða á síðasta ári sem á að vita á góða veiði í sumar. Búist er við góðu hlutfalli stórlaxa á Norðausturlandi.

Hafrannsóknastofnun hefur undanfarið birt á heimasíðu sinni vöktunarskýrslur úr nokkrum laxveiðiám. Búið er að birta skýrslur meðal annars fyrir Laxá í Leirársveit, Þverá/Kjarrá, Gljúfurá, Norðurá og fleiri. Einnig hefur verið greint frá slíkum rannsóknum á Norðausturlandi.

Samanburðurinn er við eitt lélegasta laxveiðiár í manna minnum, 2019. Hins vegar er það svo að seiðavísitölur og þéttleiki eru borin saman við langtímameðaltöl og þá fæst raunhæfur samanburður. Kíkjum á það helsta fyrir nokkrar af þessum ám.

Laxá í Leirársveit

„Líklegt er að umtalsverður bati í laxagöngum og veiði komi fram sumarið 2020, þar sem nú er von á sterkum klakárgangi frá 2016 inn í veiðina, auk þess sem sjávarhiti var langt yfir meðallagi í júlí 2019, er seiðin gengu á beitarsvæði í hafinu. Miðað við núverandi aðstæður eru líkur til að veiðistjórnun í Laxá sé í eins góðu horfi og tilefni gefur til og að breytingar á veiðifyrirkomulagi, þar sem fluga er eina leyfða agnið á öllu vatnasvæðinu og umtalsverðar sleppingar (veitt og sleppt) eru stundaðar í stangaveiðinni, muni leiða til stækkunar hrygningarstofna á vatnasvæðinu og auka fiskgengd í ána er fram líða stundir,“ segir í vöktunarskýrslunni

Norðurá

Önnur á sem átti mjög erfitt uppdráttar í fyrra er Norðurá í Borgarfirði. Þar er útlitið betra. Í skýrslu Hafró um Norðurá segir: „Þrátt fyrir óhagstæða veðráttu 2019 og lítinn hrygningarstofn á síðastliðnu hausti sýna seiðamælingar að seiðaþéttleiki árinnar er almennt mikill og uppvaxandi árgangar sterkir. Það er því ekki annað að sjá en það veiðifyrirkomulag sem viðhaft er í Norðurá sé innan þeirra marka sem talist getur sjálfbært.“

Grímsá

Um Grímsá segir í vöktunarskýrslu Hafró: „Ágætar horfur eru nú fyrir góðar göngur inn á vatnasvæði Grímsár og Tunguár sumarið 2020. Þannig er von á endurheimtum frá sterkum seiðaárgöngum, skilyrði fyrir útgöngu seiða voru mjög hagstæð vorið 2019 og sjávarhiti sumarið 2019 var hagstæðari en 2018.“

Þverá/Kjarrá

„Allir aldurshópar laxaseiða mældust langt yfir langtímameðaltali mælinga frá 1996-2018. Vísitala seiðaþéttleika allra aldurshópa laxaseiða var yfir meðaltali mælinga.“ Þá hnykkja skýrsluhöfundar á því að „í mælingum á seiðaþéttleika á vatnasvæði Þverár hafa vísitölumælingarnar aðeins tvisvar sinnum mælst hærri, árin 2010 og 2017“, og verða þetta að teljast góðar fréttir til nokkurra ára.
Fossgerði veiðihús við Selá í Vopnafirði. Þetta gæti orðið gott …
Fossgerði veiðihús við Selá í Vopnafirði. Þetta gæti orðið gott stórlaxaár í Vopnafirðinum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Stórlaxinn á NA-horninu

Í skýrslu fjögurra fiskifræðinga um rannsóknir á fiskistofnum nokkurra áa á Norðausturlandi koma fram upplýsingar sem eru áhugaverðar fyrir veiðina á þeim slóðum í sumar, og næstu ár. „Þá höfum við séð greinilega að árangur af veiða‐og‐sleppa er að skila sér í auknum seiðaþéttleika í ám á Norðausturlandi. Það að viðhalda nægilega stórum hrygningarstofni virðist skila sér í því að niðursveifla vegna lélegra umhverfisskilyrða verður minni. Seiðaþéttleiki 1+ og 2+ laxaseiða mælist mikill og mun skila sér í fjölda gönguseiða, sem eykur líkurnar á góðri fiskgengd ef sjávarskilyrði eru hagstæð og dregur um leið úr líkum á lélegri fiskgengd ef skilyrði eru slæm. Góð smálaxaveiði 2019 á Norðausturlandi þýðir að líklegra er að við munum sjá góða stórlaxagöngu sumarið 2020.“
Auðvitað er þetta staðan eins og hún var í haust og margar breytur í hafinu geta haft áhrif. En þetta er skrifað af okkar fremstu vísindamönnum á þessu sviði. Og nú er bara að krossa fingur og vona að sem flestir skili sér heim, bæði litlir og stórir.
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert