Rjúpnatalningum á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands vorið 2020 er lokið. Rjúpum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi en þar var fækkun. Á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum virðist stofninn vera að ná hámarki og á Austurlandi er rjúpum að fjölga eftir nokkur mögur ár.
Í fréttatilkynningu frá Náttúrufræðistofnun kemur fram að á Norðurlandi er rjúpnastofninn á niðurleið eftir hámark 2018. Hins vegar fjölgaði rjúpum á Suðurlandi eftir mikið fall 2017–2019. Áki Ármann Jónsson er formaður Skotveiðifélags Íslands eða Skotvís. Komu þessar niðurstöður honum á óvart?
„Já og nei. Ég bjóst við fækkun á NA-landi miðað við stöðu rjúpnasveiflunnar en uppsveiflan á Suður-, Austur- og Vesturlandi kom á óvart. Það sem er ánægjulegast er að okkar sýn á veiðistjórnun gekk algerlega upp, fjölgun leyfilegra veiðidaga hafði ekki áhrif á meðalfjölda veiddra fugla né aukna sókn veiðimanna í stofninn,“ sagði Áki Ármann í samtali við Sporðaköst.
Þó svo að talningar á vordögum gefi góða niðurstöðu víða um land er enn eftir að taka margt inn í myndina áður en heildarmyndin verður skýr. Þannig segir í fréttatilkynningu Náttúrufræðistofnunar: „Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna nú í sumar. Jafnframt munu þá liggja fyrir útreikningar á afföllum rjúpna 2019 til 2020 og mat á veiði haustið 2019. Þegar þessi gögn eru tilbúin verður hægt að greina stofnbreytingar frekar.“
En hvað segir formaður Skotvís, er ástæða til að fjölga veiðidögum að hans mati í ljósi þessara talninga?
„Þessar niðurstöður eru ánægjulegar og gott innlegg í þá umræðu. Stærð veiðistofns í haust ræðst af viðkomu rjúpunnar yfir sumartímann og fram á haust en viðkoman hefur því miður ekki verið eins góð og fyrrum. Á því finnast engar skýringar í dag en SKOTVÍS hefur bent á að þann þátt þurfi að rannsaka betur.
En að því gefnu að ekki verði viðkomubrestur hjá rjúpunni í sumar teljum við aukið svigrúm fyrir fjölgun veiðidaga í haust. Þegar opnað var fyrir veiðar 2005 var veiðitímabilið sett á 25. október til 7. desember. Það virkaði alveg þá og væri tilraunarinnar virði að setja slíkt veiðitímabil á núna í haust. Það væri lágmarksáhætta tekin með því.
Einnig viljum við opna aftur fyrir veiðar á friðaða svæðinu á SV-landi. Það svæði var friðað á sínum tíma í rannsóknarskyni en sú rannsókn er löngu búin. Það er mikilvægt að þegar svæði eru tekin frá til friðunar í samstarfi við veiðimenn þá séu þau opnuð aftur þegar rannsókn lýkur. Það eykur tiltrú veiðimanna á rannsóknum og veiðistjórnunaraðgerðum til framtíðar. Samstarf og gagnkvæm virðing veiðimanna, rannsóknaraðila og stjórnsýslu er grunnurinn að veiðistjórnunaraðgerðum til framtíðar í sátt við hagsmunaðila,“ sagði formaður Skotvís.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |