Kaldakvísl á Sprengisandi hefur gefið mikla og stöðuga bleikjuveiði eftir að harður vetur gaf eftir þar efra. Slóðinn upp að neðsta veiðistað, Ósnum er orðinn fær jepplingum og jeppum og fór ritstjórn Sporðakasta til veiða þar í gær.
Með í för var þriggja ára afastrákur með ólæknandi veiðidellu og að sama skapi enga þolinmæði. Hann var settur á háhest og fékk mýkstu fluguveiðistöngina og sveiflaði henni fljótlega eins og herforingi. Eftir örfá köst setti Víkingur svo í væna bleikju og barðist við hana í drjúga stund þar sem skilningur á átökum við alvöru fisk var takmarkaður. Eftir nokkur öskur og hlátur náðist þessi líka fallega þriggja punda bleikja í háfinn. Henni var sleppt með tilheyrandi efasemdum. Skömmu síðar landaði Víkingur annar bleikju sem var áþekk. Veiðidellan helltist yfir hann og það varð að draga hann í burtu öskrandi, „Ég lil veiða annan.“ Skipti engu þó að hann væri orðinn blár af kulda og blautur í gegn.
Kaldakvísl er fullkominn staður fyrir þá sem vilja koma börnum í fisk og leyfa þeim að upplifa átök við alvöru bleikjur. Og þá er rétt að benda á Ósinn sem geymir ótrúlegt magn af fiski.
Þrjár ungar konur voru með í för og voru að taka sín fyrstu köst með flugu. Þær settu í og lönduðu sjö bleikjum þegar upp var staðið. Þó nokkrar misstust. Þetta voru þær Diljá Anna Júlíusdóttir, Hólmfríður Ólafsdóttir og Helena Ósk Óskarsdóttir. Þær fengu alla fiskana á litlar púpur í andstreymisveiði. Þær sem gáfu best voru koparlitaðar og brúnar.
Eftir að hafa skyggnt Ósinn er ljóst að hann er pakkaður af fiski og ef eitthvað er, þá er bleikjan stærri en verið hefur.
Nýlega fékk hópur hörku silungsveiðimanna sjötíu bleikjur í Köldukvísl og það á einum degi. Kaldakvísl fellur í Sporðöldulón og er Ósinn þar sem áin fellur út í lónið. Ofar í Köldukvísl má einnig finna urriða og geta þeir verið vænir að það er nokkur áskörun að finna fiskana.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |