Veiði byrjaði í Miðfjarðará, Eystri-Rangá og Laxá í Kjós í morgun. Umtalsvert magn af fiski hafði sést bæði í Miðfjarðará og Eystri-Rangá og ríkti þar veruleg spenna. Þrír laxar veiddust í Miðfjarðará í morgun og töluverður fjöldi laxa misstist. Einn kom úr Hlaupunum í Austurá og tveir úr Vesturá, þar af annar úr Túnhyl.
Spennandi verður að fylgjast með seinni vaktinni í Miðfirðinum þar sem menn sáu mikið af fiski í morgun.
Eystri-Rangá opnaði í morgun og þar var mikið fjör. Átta löxum var landað fyrir hádegi og þó nokkrir misstust. Guðmundur Atli Ásgeirsson, einn af leigutökum Rangár sagði í samtali við Sporðaköst að sér fyndist þetta líta afar vel út. „Við vorum að sjá laxa mjög víða og fiskurinn er afskaplega vel haldinn. Þetta er mun betri opnun og útlit en í fyrra,“ Guðmundur Atli.
Þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður var þremur löxum landað í Laxá í Kjós í morgun. „Áin óð upp milli sjö og níu í morgun og var eftir það orðin eitt beljandi fljót og hún varð kolmórauð. Hún var í raun svo mikil að hún var allt að því hættuleg,“ sagði Haraldur Eiríksson við Laxá í Kjós í morgun.
Laxfoss og Kvíslafoss voru einn beljandi og óveiðanlegur flaumur. „Við vitum að hún er fljót upp og líka fljót niður. Við þurfum bara að losna við litinn úr henni.“
Smálax veiddist í Króarhamri og er það óvanalegt svo ofarlega í Laxá í opnun. Haraldur sagði að töluvert magn hefði sést af lax í Kjósinni og þeir vissu til þess að hann væri undir þó að flaumurinn væri mikill þessa stundina.
Þegar veiði lauk í Eystri-Rangá voru komnir sextán laxar á land. Allt voru þetta stórlaxar og margir fiskar voru misstir.
Laxá í Kjós endaði í fimm fiskum sem verður að teljast afar gott þar sem áin var kakói stóran hluta dags.
Miðfjarðará enda með sjö laxa og er það lakara en mátti við búast. Það er ljóst að hún á talsvert inni.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |