Blöndulón er að fyllast og eftir nokkra daga mun Blanda verða óveiðanleg þegar yfirfall úr lóninu byrjar. Landsvirkjun hefur verið í samskiptum við Veiðifélag Blöndu og Svartár vegna málsins og metið stöðuna. Haldi veðurfar áfram á sömu nótum næstu daga má búast við yfirfallinu 10. til 12. júlí en kólni getur yfirfallið frestast til 15. til 18. júlí.
Sigurður Ingi Guðmundsson formaður veiðifélagsins segir þetta kjaftshögg fyrir allt svæðið. Nú liggi fyrir að veiðihúsinu verði lokað og Blanda verði óveiðanleg í sumar, eftir að yfirfallið brestur á.
„Þetta er mjög erfitt ofan í allt annað. Hér eru nýir leigutakar sem eru að byggja upp nýjan hóp viðskiptavina og við höfum breytt reglum og fjárfest í breytingum á veiðihúsi og farið alfarið í fluguveiði. Svo hefur Covid líka haft mikil áhrif,“ sagði Sigurður í samtali við Sporðaköst.
Fulltrúar veiðifélagsins hafa bent á að hægt væri að opna botnlokur á Blöndulóni og hleypa úr því. Þá myndi lækka í lóninu og yfirfallið frestast og hægt yrði að bjarga hluta sumars fyrir veiðimenn. Sigurður segir að Landsvirkjun hafi hafnað þessu. „Ég hef með eigin augum séð þetta gert, hins vegar kannast Landsvirkjun ekki við að þetta hafi verið gert. Ég man ekki hvaða ár ég sá þetta en varð engu að síður vitni að þessu.“
Sigurður segir að sér hafi komið á óvart að Landsvirkjun sé ekki tilbúin að hleypa úr lóninu. „Þeir eru á fullu að styrkja ímynd sína með því að planta plöntum og styrkja listasýningar en svo kemur þetta ekki til greina,“ sagði Sigurður og viðurkenndi að hann væri hissa á þessari afstöðu Landsvirkjunar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |