Veiðin í Eystri Rangá er nú eins og um topptíma sumarsins væri að ræða. Í gær var landað 102 löxum og 36 veiddust fyrir hádegi í morgun. Flest svæði eru inni og mikið af fiski á þeim. Urriðafoss í Þjórsá er að gefa hörkuveiði og eru þar öflugar smálaxagöngur.
Ytri Rangá skilaði fjórtán löxum fyrir hádegi í dag og þar er stöðugur stígandi í veiðinni. Sunnlensku stórfljótin eru að skila sínu að því minnsta fyrri hluti sumars. Eystri Rangá er í sérflokki og er viðbúið að áin fari upp fyrir Urriðafoss þegar næstu veiðitölur birtast. Nú þegar eru komnir vel yfir fimm hundruð laxar úr Eystri.
Venjulega er besti tími sumars í ánni í kringum 20. júlí. Nú er að veiðast sama magn síðustu daga og hefur verið á besta tímanum.
Jóhannes Hinriksson staðarhaldari í Ytri Rangá er með kenningu varðandi þetta, þar sem enn er minni laxagengd í Ytri ánni. „Seiðunum í Eystri var sleppt mun síðar en hjá okkur og flestum öðrum. Seiðin þar fengu hlýrri móttökur í sjónum. Hiti sjávar hafði hækkað töluvert og því held ég að Eystri Rangá sé að koma svona vel út. Við ætlum að stilla okkur inn á sama módel og höldum seiðunum lengur í ár. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það kemur út næsta ár,“ sagði Jóhannes Hinriksson í samtali við Sporðaköst.
Einn þeirra sem eru að veiða í Eystri Rangá er Reynir M. Sigmundsson sem jafnframt er leiðsögumaður. Hann segist ekki hafa séð hana geyma svo mikið af fiski svo snemma. Hann notar orð á borð við: „Sturlun, geggjun, mokveiði,“ þegar hann er spurður um stöðuna. „Þetta er svakalega gaman,“ svo var hann rokinn á seinni vaktina.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |