Stærsti fiskur sumarsins í Blöndu veiddist í morgun á Breiðunni að norðanverðu. Það var breski veiðimaðurinn Nigel Hawkins sem setti í þennan risa hæng og landaði honum eftir ævintýralega baráttu. Leiðsögumaður Nigels var Róbert Haraldsson.
Fiskurinn mældist 105 sentímetrar en áður hafði veiðst 101 sentímetra hrygna í Blöndu. Fiskurinn tók rauða Frances þyngda.
Í þrígang fór laxinn niður flúðirnar fyrir neðan Breiðuna en náðist ávallt upp aftur en bardaginn var langur og strangur. Veiðin í Blöndu er að glæðast að sögn Erik Koberling staðarhaldara.
Þetta er ekki bara stærsti laxinn úr Blöndu í sumar, heldur einnig sá stærsti sem veiðst hefur á Norðvesturlandi og einungis 107 sentímetra hængurinn af Nesveiðum er stærri. Sá mældist 107 sentímetrar.
Það var svo haldið upp á þennan risa fisk með tilheyrandi hætti. Nigel skellti sér í heita pottinn með félaga sínum Alex Rutherford. Þar var borið fram sashimi sem gert var úr smálaxi sem veiddist daginn áður. Eins og myndin ber með sér er gleðin við völd eftir að hafa landað stærsta laxi árinnar í sumar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |