Það er tvennt sem stendur upp úr þegar nýjar veiðitölur fyrir liðna viku eru skoðaðar. Eystri Rangá er á miklu flugi og veiðin þar er ótrúleg miðað við fyrri hluta júlí.
Margar ár á Vesturlandi eru ekki að skila því sem þær ættu að vera að gera. Þegar horft er til fjölda fiska sem sést hafa í þessum ám þá eru veiðitölur ekki að endurspegla það magn.
Vatnsdalsá, Víðidalsá, Miðfjarðará, Norðurá, Langá og jafnvel Elliðaár eru að fá mun meira af fiski en í fyrra og jafnvel oft áður. Þannig var teljarinn í Elliðaánum í meira en átta hundruð fiskum á mánudag en fyrir réttu ári voru þeir 355 talsins. Hins vegar er léleg taka í öllum þessum ám og þær hljóta margar að eiga mikið inni.
Vestanáttir segja sumir, aðrir hreinlega skilja ekki stöðuna en allir eru sammála um að þessar ár eiga inni.
Veiði í Eystri Rangá er mun betri en menn eiga að venjast þar á þessum tíma júlí. Nú er svo komið að veiðin er á pari við það sem gerist á „prime time“ eða besta tíma. En sá tími hefst venjulega um 20. júlí. Ríflega fimm hundruð laxar veiddust í nýliðinni viku og stekkur Eystri í toppsætið á lista Landssambands veiðifélaga á angling.is. Annars er listinn þessi yfir tíu aflahæstu árnar:
Eystri Rangá 667
Urriðafoss 589
Norðurá 404
Ytri Rangá 328
Þverá/Kjarrá 275
Haffjarðará 217
Miðfjarðará 177
Langá 153
Laxá í Kjós 136
Laxá á Ásum 131
Í ellefta sæti er Hofsá í Vopnafirði með 103 laxa. Það er mjög spennandi í Hofsá sem telst öflug síðsumars á.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |