Sogið hefur verið að skila góðri veiði síðustu daga. Hörkuveiði var í Alviðru í gær og hefur Ásgarðssvæðið einnig verið að gefa góða veiði. Þrastalundarsvæðið er einnig að skila sínu og þar kom 102 sentímetra maríulax í gær, eins og við greindum frá.
Bíldfellssvæðið sem er á móti Ásgarði hefur ekki enn sem komið er verið að gefa mikla veiði, en afar líklegt er að það breytist með þeim göngum sem nú eru að skila sér.
Fyrsti laxinn sást í Soginu snemma í júní. Hann sást stökkva á veiðistaðnum Ystu nöf. Það er því ljóst að hann mætti snemma í Sogið í vor. Hins vegar er það nú að göngurnar eru að aukast. Þetta eru afar ánægjuleg tíðindi fyrir aðdáendur Sogsins en áin tók nokkra dýfu en þar er vonandi að verða breyting á.
Þá hefur bleikjan í Soginu einnig verið að veiðast í töluverðu magni. Þannig landaði veiðimaður í Ásgarði átján bleikjum á seinniparti, fyrir tveimur dögum.
Cezary Fijalkowski og félagi hans Michal Osby gerðu góða veiði í Alviðru í Sogi í gær. Á fabooksíðu sinni skrifar Cezary, „Áin er stútfull af stórum og fallegum villtum fiski. Það var eins og að koma aftur til fortíðar.“
Vonandi er Sogið aftur komið til að vera enda var áin þekkt fyrir öflugan stórlaxastofn.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |